Innherji

Síminn segir framtíð RÚV betur borgið utan samkeppnismarkaðar

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Magnús Ragnarsson hjá Símanum tekur heilshugar undir frumvarp Sjálfstæðisflokks um að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði.
Magnús Ragnarsson hjá Símanum tekur heilshugar undir frumvarp Sjálfstæðisflokks um að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði.

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins leggur aftur fram frumvarp um að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Síminn fagnar framkomu málsins í umsögn og segir ánægjulega afleiðingu þess að hið opinbera fari af samkeppnismarkaði verði betra ríkisútvarp. „Ríkisútvarp þar sem dagskrárákvarðanir verða loks teknar af dagskrárstjóra en ekki auglýsingadeild.”

Í frumvarpinu sem Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og nokkrir flokksmenn hans leggja fram eru lagðar til takmarkanir á fyrirkomulagi auglýsinga Ríkisútvarpsins í tveimur skrefum, hið fyrra að draga úr auglýsingasölu og hið seinna að taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði. 

Í greinargerð segir að markmið frumvarpsins sé að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki.

Undir frumvarpið tekur fulltrúi Símans, Magnús Ragnarsson heilshugar í umsögn sinni.

Betra RÚV sem er ekki á auglýsingamarkaði

„Frumvarpið er mikilvægur áfangi í þróun fjölmiðlaumhverfis landsins á tvennan máta. Í fyrsta lagi eru þarna lögð til skref til að minnka umsvif hins opinbera á samkeppnismarkaði hvað varðar auglýsingasölu og í öðru lagi munu þessar breytingar stuðla að mun betra Ríkisútvarpi öllum til heilla,” segir Magnús í umsögninni.

Magnús rekur það aftur til 1996 þegar starfshópur skipaður af ráðherra til að undirbúa ný útvarpslög skilaði þeirri niðurstöðu að eðlilegast væri að ríkisfjölmiðillinn hyrfi alfarið af auglýsingamarkaði. „Hver einasti starfshópur sem skoðað hefur rekstur stofnunarinnar síðan hefur komist að sömu niðurstöðu,” segir Magnús í umsögninni, nú síðast af nefnd sem skilaði af sér fyrir tæpum fjórum árum.

„Starfshópar og nefndir eru þó ekki ein um þessa skoðun. Samkeppniseftirlitið skrifaði álit um umsvif ríkisútvarpsins árið 2008 og sagði þar telja að „.. þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði í sjónvarpi sé veigamikil ástæða þess að ekki eru fleiri öflugar sjónvarpsstöðvar hér á landi..." Í álitinu er þeim tilmælum beint til menntamálaráðherra að draga Ríkisútvarpið hið fyrsta af samkeppnismarkaði og að lágmarka verulega umsvif auglýsingasölu þar til svo megi verða. Ekkert gerðist og í umsögn Samkeppniseftirlitsins frá 2012 um frumvarp til laga um Ríkisútvarp segir enn: „Samkeppniseftirlitinu hafa reglulega borist ábendingar um að félagið viðhafi enn háttsemi sem sé skaðleg samkeppni,” rekur Magnús í umsögninni.

Norðurlöndin hafi allt annan hátt á

Hver einasti starfshópur sem skoðað hefur rekstur stofnunarinnar síðan hefur komist að sömu niðurstöðu

Síðan þá hafi hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum á innlendum markaði haldið áfram að aukast. „Nágrannalöndin hafa farið allt aðra leið og takmarka verulega eða jafnvel banna ríkismiðlum að sækja sér auglýsingatekjur ofan á hina beinu ríkisstyrki."

Magnús finnur jafnframt að því að í hvert sinn sem stöðu RÚV á auglýsingamarkaði beri á góma sé rætt um hvernig eigi að bæta stofnuninni tekjumissinn. „En hann yrði um það bil 2,5 milljarðar árlega. Það eru um tvö prómill af ríkisútgjöldum og getur því varla verið grunnfyrirstaðan gegn því að sjálfstæðir miðlar fái að keppa í heilbrigðu umhverfi,” segir hann og leggur til leiðir fyrir stofnunina að hagræða í rekstri sínum. Til að mynda kostnað stofnunarinnar við að sækja auglýsingatekjur, að RÚV minnki umsvif sín og hætti að halda úti dýru dreifikerfi sem hann segir barn síns tíma.

Ríkisútvarp sem leggur rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð í stað þess að gefa pizzur í beinum útsendingum frá verslunarklösum. Ríkisútvarp sem ekki slítur Krakkafréttir frá aðalfréttum vegna útdráttar í fjárhættuspilum.

Ákvarðanir verði loks teknar af dagskrárstjóra en ekki auglýsingadeild



„Ánægjuleg afleiðing þess að hið opinbera fari afsamkeppnismarkaði verður svo miklu betra ríkisútvarp," heldur Magnús áfram.

„Ríkisútvarp þar sem dagskrárákvarðanir verða loks teknar af dagskrárstjóra en ekki auglýsingadeild. Ríkisútvarp sem leggur rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð í stað þess að gefa pizzur í beinum útsendingum frá verslunarklösum. Ríkisútvarp sem ekki slítur Krakkafréttir frá aðalfréttum vegna útdráttar í fjárhættuspilum. Þannig ríkisútvarp gæti orðið RUV allra landsmanna,” segir í niðurlagi umsagnarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×