Rafíþróttir

Framhaldsskólaleikarnir: Átta liða úrslit hefjast í kvöld og Króli spáir í spilin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Framhaldsskólaleikarnir hefjast í dag með viðureign Verszló og MÁ.
Framhaldsskólaleikarnir hefjast í dag með viðureign Verszló og MÁ.

Úrslitakeppni Framhaldsskólaleika Rafíþróttasamtaka Íslands, FRÍS, hefst í kvöld. Þrettán skólar tóku þátt í ár, en aðeins átta standa eftir.

Skólarnir átta sem komust áfram og munu taka þátt í úrslitakeppninni í ár eru Tækniskólinn, FVA, Kvennó, Verzló, MÁ, MS, MTR og ME.

Í undankeppninni var keppt í CS:GO, Rocket League og FIFA þar sem skólarnir fengu stig fyrir hvern leik fyrir sig. Þá var einnig haldin safélagsmiðlakeppni milli skólanna.

Í úrslitakeppninni mætast tveir skólar hverju sinni og keppa í öllum þremur leikjunum. Sá skóli sem sigrar í að minnsta kosti tveimur af þremur leikjum fer áfram í undanúrslit, en hinn situr eftir með sárt ennið.

Þáttastjórnendur verða heldur ekki af verri gerðinni. Kristján Einar Kristjánsson, sem hefur verið áberandi í umfjöllun um Ljósleiðaradeildina í CS:GO, fær með sér í lið þau Egil Ploder, Króla, Donnu Cruz og Evu Margréti.

„Ég býst við enn meiri stemningu í ár“

Tónlistarmaðurinn Króli býst við hörkukeppni í ár.Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Tónlistarmaðurinn Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, mun sjá um umfjöllun um mótið ásamt fleirum. Króli segist hlakka mikið til mótsins.

„Þetta leggst bara vel í mig. Þetta er í annað skipti sem þetta er haldið og í annað skipti sem ég fæ að vera með,“ sagði í Króli í samtali við Vísi. „Við fengum mjög gott mót í fyrra og ég býst við enn meiri stemningu í ár.“

Króli segist sjálfur grípa í tölvuleiki af og til. Hann viðurkennir þó að hann sé kannski ekki sá besti í þeim leikjum sem verða spilaðir á FRÍS, en sé þó nokkuð lunkinn í FIFA.

„Já, ég spila af og til. Ég spilaði mest FIFA hérna áður fyrr en er búinn að færa mig meira yfir í NBA 2K. Svo hef ég alltaf spilað mikið Football Manager þannig að það má kannski segja að ég sé svona einn af þessum íþróttatölvuleikjanördum.“

„Ég er hins vegar minna í öllum þessum skotleikjum, en það er nú bara af því að ég er svo hrikalega lélegur í þeim,“ sagði Króli léttur.

Að lokum var Króli spurður að því hvaða tvö lið honum þætti líklegust til að komast alla leið í úrslit og hann var ekki lengi að svara því.

„MÁ. Þeir eru með tölvuleikjagerðarbraut í skólanum þar sem nemendur eru að læra að búa til tölvuleiki og það bara hlýtur að hjálpa þeim. Svo er Tækniskólinn alltaf helvíti sterkur og ekki hægt að afskrifa þau,“ sagði Króli að lokum.

„Það eru flestir að fylgjast með þessu“

Jón Grétar Guðjónsson, liðsmaður Mentaskólans á Tröllaskaga, ræddi einnig við Vísi. Hann segir að stemningin í skólanum sé góð fyrir mótinu og hann er bjartsýnn á að liðið fari langt.

„Stemningin í liðinu er búin að vera mjög góð. Við erum kannski ekki búin að vera beint með stífar æfingar, en höfum verið að mæta og spila saman í skólanum. Þá getum við æft öll saman en svo erum við líka búin að vera að æfa heima ein og sér,“ sagði Jón Grétar.

„Ég finn alveg fyrir smá spennu í skólanum líka. Við höfum verið að streyma aðeins á Youtube og það var mikil stemning þegar það kom í ljós að við hefðum komist áfram. Það eru flestir að fylgjast með þessu.“

Jón Grétar og liðsfélagar hans mæta FVA í átta liða úrslitum þann 3. mars og hann er nokkuð bjartsýnn fyrir gengi liðsins.

„Við höfum aðeins farið yfir hvernig þeim gekk í sínum leikjum svona til að reyna að sjá hvar við búumst við að vinna og hvar við sjáum að þetta gæti orðið erfitt. Við erum mjög bjartsýn á það að ef okkur tekst að vinna FVA í átta liða úrslitum þá förum við í úrslit. Miðað við hvernig mótið er sett upp þá býst ég við að við mætum Tækniskólanum þar,“ sagði Jón Grétar að lokum.

„Finnst það ekki setja pressu á liðið að Króli hafi spáð okkur í úrslit“

Í kvöld er svo fyrsta viðureignin í átta liða úrslitum þar sem Verzló og MÁ mætast. Brimar Jörvi Guðmundsson er liðsmaður MÁ og hann hefur einnig trú á því að sitt lið fari alla leið.

„Það er smá spenningur í slatta af fólki í skólanum, en kannski ekki allir að fylgjast nógu mikið með,“ sagði Brimar.

„Við höfum verið með stífar æfingar seinustu vikur, þá sérstaklega í CS:GO. Þau í Rocket League teyminu hafa líka verið dugleg að æfa en FIFA-liðið hefði alveg mátt æfa meira,“ sagði Brimar léttur í bragði.

Hann segir einnig að liðið sé búið að kynna sér andstæðinga kvöldsins vel og að þrátt fyrir að Króli hafi tippað á að þau fari alla leið í úrslit setji það ekki aukna pressu á liðið.

„Við erum búin að kynna okkur Verzló-liðið vel. Við búumst við sigri í CS:GO, en Rocket League gæti orðið jafnt.“

„Mér finnst það ekki setja pressu á liðið að Króli hafi spáð okkur í úrslit. Við höfum mikla trú á okkur sjálfum og erum alveg viss um að við getum farið alla leið í úrslit.“

Átta liða úrslitin hefjast í kvöld með viðureign Verzló og MÁ, en dagskrá mótsins má finna í heild sinni hér fyrir neðan. Hægt verður að fylgjast með Framhaldsskólaleikunum á Twitch-síðu Rafíþróttasambands Íslands, eða einfaldlega á Stöð 2 eSport. Útsending kvöldsins hefst klukkan 19:00.

17. febrúar: Verzló - MÁ

24. febrúar: Kvennó - MS

3. mars: FVA - MTR

10. mars: Tækniskólinn - ME

17. mars: Fyrri undanúrslit

24. mars: Seinni undanúrslit

31. mars: Úrslit




Fleiri fréttir

Sjá meira


×