Innherji

Metinnflæði í hlutabréfasjóði drifið áfram af fjárfestingum almennings

Hörður Ægisson skrifar
Mikill áhugi var meðal annars hjá almenningi á hlutafjárútboði Íslandsbanka en hér eru Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar og Birna Einarsdóttir bankastjóri þegar bankinn var skráður á markað í júní í fyrra.
Mikill áhugi var meðal annars hjá almenningi á hlutafjárútboði Íslandsbanka en hér eru Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar og Birna Einarsdóttir bankastjóri þegar bankinn var skráður á markað í júní í fyrra. Vísir/Arnar

Ekkert lát var á stöðugu innflæði í innlenda hlutabréfasjóði á síðasta mánuði ársins 2021 en þá námu fjárfestingar í slíkum sjóðum, að frádregnu útflæði, tæplega 2,4 milljörðum króna.

Hreint innflæði í hlutabréfasjóði, sem kemur einkum til vegna aukinna fjárfestinga almennings, meira en fjórfaldaðist á síðasta ári og var samanlagt yfir 31 milljarður króna. Hefur það aldrei mælst meira á einu ári.

Þetta má lesa út úr nýjum tölum Seðlabankans um eignir verðbréfasjóða en þær hafa bólgnað út á undanförnum mánuðum og misserum samhliða auknu innflæði í sjóðina og miklum verðhækkunum á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni. Allir innlendu hlutabréfasjóðirnir skiluðu betri ávöxtun á árinu 2021 borið saman við Úrvalsvísitöluna sem hækkaði um 33 prósent.

Nær samfellt innflæði hefur verið í bæði hlutabréfasjóði og blandaða sjóði allt frá vori ársins 2020. Í tilfelli blandaðra sjóða nam það um 27 milljörðum króna á liðnu ári og jókst um meira en 20 milljarða frá árinu 2020.

Frá því í apríl árið 2020 hafa eignir hlutabréfasjóðanna vaxið um liðlega 100 milljarða króna, sem eykur um leið fjárfestingagetu sjóðanna sem því nemur, og námu þær í lok síðasta árs yfir 161 milljarði króna. Eignir blandaðra sjóða hafa yfir sama tímabil stækkað um næstum 180 prósent og nema í dag um 80 milljörðum. 

Kaup almennings á hlutdeildarskírteinum í slíkum sjóðum hefur aukist talsvert að undanförnu og nema eignir heimila í hlutabréfasjóðum meira en 55 milljörðum króna borið saman við tæplega 30 milljarða í árslok 2020. Almenningur fer því með um 35 prósent af heildareignum hlutabréfasjóðanna.

Þóknun við kaup á hlut­deild­ar­skír­teinum í hlutabréfasjóðum nemur oftast á bilinu 1,5 til 2 prósent. Sá sem kaupir í sjóði fyrir eina milljón króna, svo dæmi sé tekið, greiðir þá fimmtán ­til tuttugu þús­und krónur í þókn­un. Til viðbótar innheimta sjóðirnir árlega umsýsluþóknun sem getur oft verið nálægt 2 prósentum.

Í rökstuðningi Bankasýslunnar, sem til við fjármálaráðherra í síðustu viku að fá heimild til að selja 65 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka til ársins 2023, er meðal annars vísað til aukins innflæði í verðbréfasjóði á undanförnum mánuðum. Er það sagt styðja við þá skoðun Bankasýslunnar að frekari sala á hlutum í Íslandsbanka – markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar er í dag 160 milljarðar – verði farsæl vegna meiri áhuga og bolmagns fjárfesta.

Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði þar sem fjárfestar hafa meðal annars verið færa sig úr áhættulitlum eignum, eins og ríkisskuldabréfum og innlánsreikningum, yfir í hlutabréf.

Á síðasta ári jukust hlutabréfaviðskipti í Kauphöllinni um 75 prósent. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga nam rúmlega 2.500 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkaði það um 63 prósent á síðasta ári.

Á undanförnum dögum og vikum hefur hins vegar gætt titrings í Kauphöllinni sem má einkum rekja til verðlækkana á erlendum hlutabréfamörkuðum þar sem fjárfestar vænta þess að Seðlabanki Bandaríkjanna fari brátt að hefja vaxtahækkunarferli sitt og dragi úr magnbundinni íhlutun, þ.e. uppkaupum á skuldabréfum. Ofan á væntingar um vaxtahækkanir – fjárfestar vestanhafs búast við að minnsta kosti fjórum vaxtahækkunum upp á 0,25 prósentustig á árinu – bætast síðan vaxandi áhyggjur af átökum í Úkraínu.

Áhrifin hafa smitast yfir á íslenska markaðinn en þar spilar einnig inn í að fjárfestar hér á landi halda að sér höndum vegna væntinga um sölu ríkissjóðs á stórum hlut í Íslandsbanka en minnkandi velta í Kauphöllinni hefur þannig magnað upp sveiflurnar á gengi hlutabréfa. Frá áramótum hefur Úrvalsvísitalan lækkað um meira en 5 prósent.


Tengdar fréttir

Hlutabréfasjóður hjá Íslandssjóðum skaraði fram úr með 60% ávöxtun

Sjóðurinn IS EQUUS Hlutabréf, sem er í rekstri Íslandssjóða, var með hæstu ávöxtun allra hlutabréfasjóða á árinu 2021 en hann skilaði sjóðsfélögum sínum tæplega 60 prósenta ávöxtun. Aðrir hlutabréfasjóðir, sem eru einnig opnir fyrir almenna fjárfesta, voru með ávöxtun á bilinu 35 til 49 prósent á síðasta ári.

Innflæði í hlutabréfasjóði meira en fjórfaldast á milli ára

Útlit er fyrir að hreint innflæði í innlenda hlutabréfasjóði á síðasta ári verði samtals um 30 milljarðar króna samhliða miklum verðhækkunum flestra skráða félaga í Kauphöllinni en til samanburðar nam það aðeins tæplega 7 milljörðum á öllu árinu 2020.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×