Saga lagði XY með snjöllu kortavali

Snorri Rafn Hallsson skrifar
saga xy

Með sigri gat Saga jafnað XY að stigum en ekki komist yfir XY vegna þess að fyrri tvær viðureignir liðanna fóru XY í vil, 16–14 og 16–10. Mikilvægt var fyrir Sögu að hafa betur í leiknum því Fylkismenn voru komnir óþægilega nálægt þeim og því er möguleikinn enn til staðar á að Saga þurfi að spila um að halda sæti sínu í deildinni.

Það sem var hins vegar mest spennandi að sjá var Pandaz mæta sínum gömlu félögum í Sögu en hann fór yfir til XY í síðasta leikmannaskiptaglugga. Báðum liðum hefur gengið verr í öðrum hring en þeim fyrsta og því mikilvægt fyrir þau bæði að byrja þann þriðja á sigri.

Saga og XY eru þekkt fyrir að elska að spila í Nuke en öllum að óvörum bannaði Saga Nuke kortið og hafði XY valið á milli Ancient og Dust 2. XY valdi skiljanlega Dust 2 enda ekki mikil reynsla komin á Ancient í keppnisleikjum.

XY hafði betur í hnífalotunni og kaus að byrja í vörninni (Counter-Terrorists) og hóf Saga því leikinn í sókn. Dom var ekki lengi að taka út gamla liðsfélagann Pandaz strax í upphafi fyrstu lotu sem Saga vann með þrefaldri fellu frá brnr og með þrjá menn á lífi. Næstu 4 lotur féllu einnig Sögu í vil. Saga náði iðulega tökum á long-inu og komu sprengjunni snyrtilega fyrir gegn fáliðuðu XY.

Fyrsta sigurlota XY kom eftir öfluga opnun en ADHD var staðráðinn í að gefast ekki upp og var við það að fella alla leikmenn XY þegar H0Z1D3R tókst loks að sjá við honum. Saga mætti til baka af árásargirni og vann næstu lotu til að senda XY í spar. XY lét það þó lítið á sig fá og lét skammbyssurnar syngja til að svara um hæl.

Örlítið líf var þó komið í XY um stund þegar þeir stöðvuðu nokkrar sóknir Sögu sem voru orðnar nokkuð fyrirsjáanlegar. KeliTurbo fór þar fremstur í flokki en Saga var einfaldlega sterkari í fyrri hálfleik.

ADHD gerði vel í að sækja fellur á miðjunni á meðan liðsfélagarnar fóru agað um kortið og leituðu uppi bæði fellur og tækifæri til að opna loturnar og halda tökunum á leiknum þó XY næði sér í síðustu lotuna.

Staða í hálfleik: Saga 11 – 4 XY

Í skammbyssulotunni sótti XY hratt á B svæðið og hafði betur og í næstu lotu voru leikmenn Sögu snarlega stráfelldir. XY nýtti sér þá fjárhagslega yfirburði til að tryggja sér þriðju lotu síðari hálfleiks líka og minnka að lokum stigamuninn í 11–8.

Skiptust liðin svo á lotum og þó svo að staðan væri farin að líta mun betur út fyrir XY hélt Saga forskotinu. XY voru fljótir að koma sprengjunni fyrir undir lok leiksins en Saga mætti trekk í trekk af festu inn á sprengjusvæðið til sjá við þeim. ADHD lauk leiknum svo með fjórfaldri fellu á vappanum.

Lokastaða: Saga 16 – 10 XY

Þegar upp var staðið varð slakur varnarhálfleikur XY að falli og ljóst að Saga sá við þeim með snjöllu kortavali og góðu samspili. Saga er því jöfn XY að stigum en situr enn í sjötta sætinu. Í næstu umferð tekur Saga á móti Dusty föstudaginn 18. febrúar en þriðjudaginn 15. febrúar mætir XY Kórdrengjum. Brekkan er því brattari fyrir Sögu en sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira