Atvinnulausir voru alls 10.541 í lok janúar, 6.018 karlar og 4.523 konur. Atvinnulausum körlum fjölgaði um 262 frá desemberlokum og atvinnulausum konum fjölgaði um 118.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni ekki breytast mikið í febrúar og verði á bilinu 5,1% til 5,3%. Þetta kemur fram í janúarskýrslu stofnunarinnar. Atvinnuleysi er áfram mest á Suðurnesjum eða 9,5%.
Alls höfðu 3.579 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok janúar og fækkaði um 223 frá desember. Hins vegar voru þeir 4.508 í janúarlok 2021 og hefur því fækkað talsvert á einu ári í öllum aldurshópum nema elsta aldurshópnum 60 ára og eldri.
Alls voru 4.478 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok janúar og fjölgaði um 189 frá fyrri mánuði.