Innherji

Inngrip lækka söluverð Íslandsbanka, segir formaður efnahagsnefndar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. VÍSIR/VILHELM

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að tillaga Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra um að skylda viðskiptabankana til að verja hluta af hagnaði sínum í að niðurgreiða vexti sé til þess fallin að lækka verðmiðann á Íslandsbanka þegar ríkið selur eignarhlutinn sem eftir stendur.

Morgunblaðið hafði eftir viðskiptaráðherra í gær að bankarnir ættu, í ljósi mikils hagnaðar, að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem horfa fram á hærri vaxtabyrði vegna vaxtahækkana Seðlabankans.

„Bankarnir eru að skila ofurhagnaði og hagnaður þeirra verður meiri í kjölfar stýrivaxtahækkana Seðlabanka Íslands. Ég tel að það eigi að nota þennan ofurhagnað til að greiða niður vexti fólksins í landinu,“ sagði Lilja. „Ef bankarnir finna ekki einhverja lausn á því tel ég að við ættum að endurvekja bankaskattinn.“

Innt eftir viðbrögðum við ummælum Lilju segir Guðrún að þau hafi komið eins og þruma úr heiðskýru lofti. „Ef ríkisvaldið ætlar að breyta rekstrarskilyrðum banka með þessu hætti hlýtur það með einum eða öðrum hætti að hafa áhrif á sölu þess hlutar sem eftir stendur í Íslandsbanka. Það liggur í hlutarins eðli að ef ríkið ætlar sem eigandi að stíga inn með íþyngjandi hætti hefur það áhrif á söluverðið.“

Stjórnvöld gera ráð fyrir því að selja allan 65 prósenta eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka á þessu ári og því næsta. Ríkissjóður fékk 55 milljarða króna þegar hann seldi 35 prósenta hlut í hlutfjárútboði Íslandsbanka í fyrra en síðan þá hefur gengi bankans í Kauphöllinni hækkað verulega. Miðað við núverandi markaðsgengi, sem er um 60 prósentum hærra en útboðsgengið var í júlí í fyrra, má ætla að ríkissjóður geti fengið allt að 160 milljarða króna fyrir eftirstandandi eignarhlut.

Guðrún bendir að vel hafi tekist til á síðustu árum að samræma bankaregluverkið hér á landi við það sem þekkist annars staðar í Evrópu. „Með því að setja skatta á því formi sem lagt er til hér er verið að draga úr samkeppnishæfni íslenska bankakerfisins og gera íslenskum bönkum erfiðara fyrir að bjóða upp á hagkvæm kjör.“

Það liggur í hlutarins eðli að ef ríkið ætlar sem eigandi að stíga inn með íþyngjandi hætti hefur það áhrif á söluverðið

Seðlabankinn tilkynnti á miðvikudaginn að vextir yrðu hækkaðir um 75 punkta – úr 2 prósentum í 2,75 prósent – en verðbólguhorfur hafa versnað töluvert frá síðasta fundi nefndarinnar í nóvember. Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólgan verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent fram eftir þessu ári.

Eftir vaxtaákvörðunina sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í samtali við Innherja að hann væri lítt hrifinn af þensluhvetjandi aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Vísaði hann þar til tillögu Samfylkingarinnar um að stjórnvöld kæmu með mótvægisaðgerðir, einkum beinan fjárhagsstuðning, til að milda höggið sem almenningur yrði fyrir vegna hækkandi verðbólgu og vaxtahækkana.

„Ef ríkissjóður ætlar að fara henda sprekum á bálið þá væri það aðeins örugg leið til að ýta undir enn hærri verðbólgu og hækkandi vexti sem myndi vinna gegn því sem Seðlabankinn er að reyna gera til að tryggja verðstöðugleika,“ sagði Ásgeir.

Þá benti seðlabankastjóri á að kaupmáttur hefði aukist í heimsfaraldrinum og staða heimilanna hefði aldrei verið betri. „Það eru þess vegna algjör öfugmæli að tala um eitthvað neyðarástand sem þurfi bregðast við.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×