Viðskipti innlent

Sjó­vá semur við nýja aðila til að sjá um vega­að­stoðina

Atli Ísleifsson skrifar
Sjóvá rifti í haust samningi við Félag íslenskra bifreiðaeigenda sem hafði sinnt verkefninu frá árinu 2007.
Sjóvá rifti í haust samningi við Félag íslenskra bifreiðaeigenda sem hafði sinnt verkefninu frá árinu 2007. Vísir/Vilhelm

Tryggingafélagið Sjóvá hefur gert samning við Securitas um að sinna vegaaðstoð fyrir viðskiptavini tryggingafélagsins.

Sjóvá sögðu í haust upp samningi við Félag íslenskra bifreiðaeigenda sem hafði sinnt verkefninu, en forsvarsmenn FÍB vildu meina að Sjóvá hafi með því verið að hefna sín eftir að félagið gagnrýndi tryggingafélagið vegna fimm milljarða króna greiðslu til hluthafa tryggingafélagsins. Sjóvá segir hins vegar að tilboð hafi borist frá Securitas síðasta sumar sem hafi svo endað með samkomulagi að loknum viðræðum.

Sagt er frá því í tilkynningu frá Sjóvá að samið hafi verið við Securitas um að sinna vegaaðstoðinni sem felst í að viðskiptavinir geti fengið aðstoð ef bílar þeirra verða straum- eða bensínlausir á skilgreindum svæðum, dekk springur eða aðstoðar er þörf við útfyllingu tjónaskýrslu.

Tilboð barst síðasta sumar

Sjóvá hefur boðið viðskiptavinum upp á vegaaðstoð frá árinu 2007. „Hingað til hefur FÍB Aðstoð séð um að veita þjónustuna en eftir að tilboð barst frá Securitas síðastliðið sumar hófust viðræður milli félaganna sem enduðu með samkomulagi,“ segir í tilkynningunni, en Securitas mun alfarið taka við þjónustunni um næstu mánaðamót.

Sjóvá sagði upp samningnum við FÍB í október, um mánuði eftir að FÍB skoraði á Sjóvá að skila „ofteknum iðgjöldum, ekki síst af bílatryggingum“, í stað þess að láta fjárhæðir fara til hluthafa. Var þar vísað í 2,5 milljarða greiðslu til hluthafa í tengslum við hlutafjárlækkun, auk 2,65 milljarða króna arðgreiðslu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×