Umræðan

Á óþekktum slóðum

Hörður Ægisson skrifar

Staðan hefur breyst hratt á skömmum tíma og öllum verðbólguspám síðasta árs hefur verið fleygt út um gluggann. Verðbólgan hefur leikið lausum hala beggja vegna Atlantshafsins um nokkurt skeið. Fæstir seðlabankar heimsins, margir hverjir með vextina við núllið um árabil og búnir að beita efnahagsreikningi sínum í óhóflegu mæli með kaupum á ríkisbréfum til að koma hjólum efnahagslífsins af stað, hafa hins vegar haft kjark til þess að mæta vaxandi verðbólgu með hækkun stýrivaxta. Nú hafa þeir ekki neinn annan valkost – verðbólgan er meiri en fimm prósent í Bandaríkjunum, Bretlandi og á evrusvæðinu – og spurningin er aðeins hversu stór skref seðlabankar munu stíga í að draga úr framboði á ódýrum peningum á komandi misserum.

Ísland er þar enginn undantekning. Verðbólgan mælist 5,7 prósent, mun meiri en greinendur höfðu spáð fyrir um í janúar, og hefur ekki verið hærri í áratug. Ástæðurnar eru flestum vel kunnar. Hækkandi húsnæðisverð, drifið áfram af sögulega litlu framboði af eignum á höfuðborgarsvæðinu og lágum vöxtum, vegur þyngst en því fer fjarri að verðbólguvandinn einskorðist aðeins við húsnæðismarkaðinn. Innlent verðlag, án húsnæðis, hefur hækkað um nærri 5 prósent á síðustu tólf mánuðum sem gefur til kynna verulegan undirliggjandi verðbólguþrýsting. Það veldur Seðlabankanum án efa miklum áhyggjum.

Seðlabanki Íslands, rétt eins og aðrir seðlabankar heimsins, hafði rangt fyrir sér um þróun verðbólgunnar sem verður talsvert hærri og þrálátari en spár gerðu ráð fyrir.

Á næstu mánuðum er sömuleiðis útlit fyrir að innflutt verðbólgu muni birtast okkur með meira afgerandi hætti en hingað til. Helstu heildsölurnar, eins og Innherji hefur greint frá að undanförnu, segjast ekki hafa séð eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin eigi erfitt að koma vörnum við og hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum muni óumflýjanlega seytla inn smásöluverð á komandi mánuðum. „Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum,“ sagði forstjóri Inness, einnar stærstu heildsölu landsins. Það er ástæða til að leggja við hlustir þegar slík varnarorð heyrast.

Allir þurfa að róa í sömu átt

Seðlabanki Íslands, rétt eins og aðrir seðlabankar heimsins, hafði rangt fyrir sér um þróun verðbólgunnar sem verður talsvert hærri og þrálátari en spár gerðu ráð fyrir. Of skammt var gengið í vaxtahækkunum á liðnu ári og bankanum er því nauðugur sá einn kostur að rífa í bremsuna á vaxtaákvörðunarfundi sínum í næstu viku eigi honum að takast að halda ört hækkandi verðbólguvæntingum í skefjum. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hefur hækkað á bilinu 40 til 70 punkta, mest á styttri bréfunum, frá áramótum og greinendur og fjárfestar veðja nú allir á að stýrivextir – þeir standa nú í 2 prósentum – verði hækkaðir um 0,5 til 1 prósentu. Hver svo sem niðurstaðan verður þá mun sú vaxtahækkun bíta fast en Seðlabankinn er á áður óþekktum slóðum þar sem stór hluti heimila er með breytileg óverðtryggð íbúðalán beintengd skammtímavöxtum.

Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að sýna í framkvæmd að þeim sé alvara um að vilja viðhalda verðstöðugleika í landinu.

Verði ekkert aðhafst er alls ekki óraunhæft að ætla að verðbólgan muni nálgast tveggja stafa tölu áður en langt um líður. Ef okkur á að takast að ná verðbólgunni niður að markmiði þá dugar ekki, eins og seðlabankastjóri hefur verið óþreytandi að ítreka, að peningastefnan sé ein að róa í þá átt heldur þarf ríkissjóður að draga sig til hlés með því að minnka sem mest hallareksturinn og aðilar vinnumarkaðarins sýni í framkvæmd að þeim sé alvara um að vilja viðhalda verðstöðugleika í landinu. Það meðal annars þýðir að í komandi kjarasamningum verður ekki í boði að sækja miklar kjarabætur í formi launahækkana – launafólk þarf að gangast við lítilli sem engri kaupmáttaraukningu – sem væri eins og að hella olíu á eldinn við þessar aðstæður. Yfirlýsingar verkalýðsleiðtoga um þeir ætli sér að sækja „hverja einustu krónu“ sem verður lögð á heimilin með hærri vöxtum gefur þar ekki góð fyrirheit og sýnir einstakt skilningsleysi hinna sömu á þeirri ábyrgð sem þeir bera á vaxtastiginu.

Gengisstyrking á góðum tíma

Lögbundið hlutverk Seðlabankans er skýrt. Hann hefur það að meginmarkmiði að tryggja að verðbólga sé að jafnaði sem næst 2,5 prósentum, skiptir þá engu máli hvort sú verðbólga komi til vegna innlendra eða erlendra áhrifaþátta. Stöðug gengishækkun krónunnar að undanförnu, hún hefur hækkað um meira en 5 prósent gagnvart evrunni frá því í október, kemur hins vegar á góðum tíma fyrir bankann og ætti að draga verulega úr erlendum verðbólguþrýstingi þegar líður á árið. Gengisstyrkingin, sem flestir eiga von á að muni halda áfram á næstu misserum, hefur raunar verið svo snörp að Seðlabankinn hefur – réttilega – séð sig knúinn til að reyna að hægja á henni með gjaldeyrisinngripum

Mikil hækkun á gengi krónunnar, sem er að eiga sér stað í raun áður en vaxtarhækkunarferli Seðlabankans er farið af stað fyrir alvöru, er um margt nýmæli í íslenskri hagsögu.

Það eru ekki hagsmunir þjóðarbúsins í heild sinni að sjá gengið hækka of skarpt á skömmum tíma. Slík þróun mun skerða samkeppnishæfni útflutningsgreinanna, einkum ferðaþjónustunnar á viðkvæmum tíma í endurreisn hennar, og eins skapa að lokum ójafnvægi í hagkerfinu með tilheyrandi þensluhvetjandi áhrifum sem mun hitta okkur síðar fyrir með meiri verðbólgu og hærri vöxtum.

Mikil hækkun á gengi krónunnar, sem er að eiga sér stað í raun áður en vaxtarhækkunarferli Seðlabankans er farið af stað fyrir alvöru, er um margt nýmæli í íslenskri hagsögu og endurspeglar styrk hagkerfisins um þessar mundir. Þar kemur meðal annars til vaxandi viðskiptaafgangur við útlönd, gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins hefur aldrei verið sterkari og verðbréfaeign erlendra fjárfesta er afar lítil í sögulegu samhengi. Ísland er því um margt í öfundsverðri stöðu verði rétt haldið á málum á komandi árum.

Stóra áskorunin verður í ár

Til skemmri tíma er Seðlabankanum augljóslega vandi á höndum. Of lítil vaxtahækkun á vaxtaákvörðunarfundi næstkomandi miðvikudag – án efa þeim mikilvægasta frá því að Ásgeir Jónsson tók við embætti seðlabankastjóra – gæti grafið verulega undan trúverðugleika bankans í augum markaðsaðila um að honum sé alvara um að ná böndum á verðbólgunni. Hitt er að Ísland er ekki eyland á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ákveði Seðlabankinn að taka mun stærri skref en seðlabankar okkar helstu viðskiptalanda, sem eru með verðbólguna á svipuðum slóðum, mun það auka enn frekar vaxtamun við útlönd og styrkja krónuna – samtímis því að Seðlabankinn er að reyna tempra hana með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Það er ekki óskastaða fyrir Seðlabankann að vera í.

Stóra áskorun stjórnvalda verður í ár, þegar eftirmálar þeirrar efnahagsstefnu birtast okkur í hækkandi verðbólguvæntingum, þegar þau þurfa að grípa í taumana en það verður um seinan.

Í upphafi faraldursins var mörkuð sú leið af hálfu stjórnvalda, bæði ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, að gera meira frekar en minna til að bregðast við efnahagsáhrifum farsóttarinnar. Það kann að hafa verið rétt ákvörðun á þeim tíma þegar óvissan var hvað mest. Mikil lausatök í peninga- og ríkisfjármálastefnunni, til viðbótar við gríðarlegar launahækkanir, skiluðu vissulega þeim árangri að milda samdráttinn og skapa forsendur fyrir skjótum efnahagsbata. Þær aðgerðir komu hins vegar ekki án kostnaðar. Stóra áskorun stjórnvalda verður í ár, þegar eftirmálar þeirrar efnahagsstefnu birtast okkur meðal annars í hækkandi verðbólguvæntingum, þegar þau þurfa að grípa í taumana áður en það verður um seinan. Það er undir okkur sjálfum komið að klúðra þessu ekki.

Höfundur er ritstjóri Innherja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×