Innherji

Metár í pöntunum og Marel með augun á stærri yfirtökum

Hörður Ægisson skrifar
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að mikil umbreyting sé að eiga sér stað í allri virðiskeðjunni, með aukinn fókus á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að mikil umbreyting sé að eiga sér stað í allri virðiskeðjunni, með aukinn fókus á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir.

Hagfelldar markaðsaðstæður, sterk staða og fjárhagsstyrkur fyrirtækisins gerir Marel nú „kleift að ráðast í stærri yfirtökur til að knýja fram áframhaldandi vöxt og viðgang,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, í tilkynningu með ársuppgjöri félagsins sem var birt eftir lokun markaða í gær.

Tekjur Marels á síðasta ársfjórðungi 2021 námu rúmlega 367 milljónum evra, jafnvirði um 53 milljarðar íslenskra króna, og jukust um nærri sjö prósent frá sama tíma. Hagnaðurinn nam 28,5 milljónum evra, og lækkaði aðeins á milli ára, en heilt yfir var uppgjör félagsins í línu við meðalspár greinenda.

Hlutabréfaverð Marels, sem hefur lækkað talsvert á síðustu mánuðum, hækkaði lítillega í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun.

Pantanir námu yfir 400 milljónum evra á fjórðungnum, sem var talsvert meira en spár gerðu ráð fyrir, en á móti kemur var reksturhagnaður (EBIT) Marels 41 milljón evra, sem var nokkuð undir væntingum greinenda. Hagnaður Marels á öllu árinu 2021 var 96,2 milljónir evra og dróst saman um sex milljónir evra á milli ára en stjórn félagsins mun gera tillögu að arðgreiðslu til hluthafa sem samsvarar 40 prósent af heildarhagnaði síðasta árs.

Í uppgjörstilkynningu Marels kemur fram að pantanabókin hafi staðið í 569 milljónum evra í árslok. Á liðnu ári var slegið met í pöntunum – þær námu samtals 1,5 milljarði evra og jukust um 22 prósent frá 2020 – og að áfram er sögð sterk eftirspurn, drifin áfram af nýsköpun og aukinni nálægð við viðskiptavini með fjölgun framlínustarfsmanna um heim allan.

Félagið stendur við fyrri markmið sitt um að skila 12 prósenta árlegum vexti á árunum 2017 til 2026 og tekur fram að á tímabilinu 2017 til 2021 hafi vöxturinn hins vegar numið um 7 prósentum að meðaltali ári.

Árni Oddur segir að mikil umbreyting sé að eiga sér stað í allri virðiskeðjunni, með aukinn fókus á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir. „Marel er í lykilstöðu til að styðja við þessa framþróun hjá viðskiptavinum okkar í átt að meiri snerpu og sveigjanleika til að bregðast við örum breytingum á kauphegðun neytenda í gegnum mismunandi dreifileiðir, svo sem netverslanir, veitingarekstur og stórmarkaði,“ að sögn forstjórans.

Árni nefnir að það sé ekki tilviljun að sala félagsins sé sterk og að horft sé bjartsýnum augum á næstu misseri. „Stöðug nýsköpun, ár frá ári og ákvörðun í miðjum heimsfaraldri að fara nær viðskiptavinum okkar um heim allan með stóraukningu í sölu- og þjónustufólki er klárlega að skila sér. Við væntum þess að auknar tekjur muni færa 19,4 prósenta stjórnunar- og sölukostnað á árinu 2021, í 18 prósent markmið okkar fyrir árslok 2023.“

Í tilkynningunni er greint frá því að Marel hafi keypt eftirstandandi 50 prósenta hlut í Curio, íslenskum framleiðanda hátækni fiskvinnsluvéla fyrir frumvinnslu hvítfisks. Fyrirtækin hafa unnið náið saman og deilt þekkingu frá því að Marel keypti 39,3 prósenta hlut í Curio í október 2019 og 10,7 prósent til viðbótar í janúar 2021.

Marel, sem er skráð á markaði bæði hér heima og í Hollandi, er langsamlega stærsta fyrirtækið í Kauphöllinni með markaðsvirði upp á tæplega 630 milljarða króna. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað talsvert á undanförnum vikum og mánuðum – frá toppi í september í fyrra þegar gengið stóð í 973 krónum á hlut nemur lækkunin um 16 prósentum – en í dag er gengið 814 krónur á hlut.


Tengdar fréttir

Marel hagnaðist um 3,5 milljarða

Marel hagnaðist um 23,2 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi. Það samsvarar tæplega þremur og hálfum milljarði króna. Á sama fjórðungi í fyrra var hagnaður félagsins 29,4 milljónir evra. Tekjur Marel voru 331,9 milljónir evra, samanborið við 287,2 á sama tíma í fyrra.

Seldi í Marel fyrir 168 milljónir króna

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hefur selt 190.000 hluti í félaginu á genginu 885 krónur á hlut og nemur salan því 168,2 milljónum króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×