Klinkið

Benedikt gæti blandað sér í toppslaginn í Reykjavík

Ritstjórn Innherja skrifar
Benedikt Jóhannesson var fjármálaráðherra Viðreisnar í ríkisstjórn árið 2017.
Benedikt Jóhannesson var fjármálaráðherra Viðreisnar í ríkisstjórn árið 2017.

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, er sagður liggja undir feldi eftir að samþykkt var að prófkjör yrði haldið við uppröðun á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningum í vor, fyrr í vikunni.

Fyrir alþingiskosningar í fyrra var greint frá því að Benedikt tæki ekki sæti á lista Viðreisnar, sem hann sóttist eftir. Uppstillingarnefndin bauð Benedikt, sem vildi oddvitasæti, í staðinn að taka neðsta sæti á lista. Uppúr því sagði Benedikt sig úr framkvæmdastjórn flokksins og orðrómur var uppi um að hann ætlaði sér að stofna nýjan flokk.

Úr því varð aldrei, en Viðreisn samþykkti um þetta leyti tillögur sem sneru að breytingum á reglum um innra starf flokksins. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að prófkjör yrði meginregla um val á efstu sætum lista flokksins.

Fyrir hefur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sitjandi oddviti borgarstjórnarflokks Viðreisnar, gefið út hún að ætli að gefa kost á sér í fyrsta sætið. Pawel Bartoszek borgarfulltrúi flokksins hefur sagst vilja halda áfram í borgarmálunum en hefur ekki gefið út eftir hvaða sæti hann kemur til með að sækjast.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×