Móðurfélag Facebook, Meta, greindi frá því í gær að daglegir notendir hafi farið úr 1.930 milljónum í lok þriðja ársfjórðungs 2021 í 1.929 milljónir notenda í lok fjórða ársfjórðungs.
Félagið gaf sömuleiðis út viðvörun vegna samdráttar í vexti vegna aukinnar samkeppni frá samfélagsmiðlum á borð við TikTok og YouTube. Á sama tíma séu auglýsendur í auknum mæli að halda að sér höndum.
Hlutabréf Meta lækkuðu um heil 20 prósent eftir viðskipti á hlutabréfamarkaði í New York í gær. Hlutabréf í öðrum samfélagsmiðlum líkt og Twitter, Snap og Pintrest lækkuðu sömuleiðis verulega eftir viðskipti dagsins.
Í frétt BBC kemur fram að Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, segi að vöxtur félagsins hafi dregist saman þar sem stórir hópar fólks, sér í lagi í yngsta aldurshópnum, leiti frekar til samkeppnisaðila.
Zuckerberg segir að Meta, sem er næststærsti stafræni auglýsingavettvangur heims á eftir Google, hafi einnig átt í vandræðum vegna nýrra breytinga á einkastillingingum hjá Apple, sem torveldi vinnu við auglýsingasölu.