Viðskipti erlent

Dag­legum not­endum Face­book fækkar í fyrsta sinn í sögunni

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, segir að vöxtur félagsins hafi dregist saman þar sem stórir hópar, sér í lagi í yngsta aldurshópnum, hafi frekar leitað til samkeppnisaðila.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, segir að vöxtur félagsins hafi dregist saman þar sem stórir hópar, sér í lagi í yngsta aldurshópnum, hafi frekar leitað til samkeppnisaðila. EPA

Daglegum notendum Facebook hefur fækkað í fyrsta sinn í átján ára sögu samfélagsmiðilsins.

Móðurfélag Facebook, Meta, greindi frá því í gær að daglegir notendir hafi farið úr 1.930 milljónum í lok þriðja ársfjórðungs 2021 í 1.929 milljónir notenda í lok fjórða ársfjórðungs.

Félagið gaf sömuleiðis út viðvörun vegna samdráttar í vexti vegna aukinnar samkeppni frá samfélagsmiðlum á borð við TikTok og YouTube. Á sama tíma séu auglýsendur í auknum mæli að halda að sér höndum.

Hlutabréf Meta lækkuðu um heil 20 prósent eftir viðskipti á hlutabréfamarkaði í New York í gær. Hlutabréf í öðrum samfélagsmiðlum líkt og Twitter, Snap og Pintrest lækkuðu sömuleiðis verulega eftir viðskipti dagsins.

Í frétt BBC kemur fram að Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, segi að vöxtur félagsins hafi dregist saman þar sem stórir hópar fólks, sér í lagi í yngsta aldurshópnum, leiti frekar til samkeppnisaðila.

Zuckerberg segir að Meta, sem er næststærsti stafræni auglýsingavettvangur heims á eftir Google, hafi einnig átt í vandræðum vegna nýrra breytinga á einkastillingingum hjá Apple, sem torveldi vinnu við auglýsingasölu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×