Innherji

Tugir með meira en 500 milljónir undir í Controlant

Þorsteinn Friðrik Halldórsson og Hörður Ægisson skrifa
Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn af stofnendum Controlant, var sjötti stærsti hluthafinn í lok síðasta árs. 
Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn af stofnendum Controlant, var sjötti stærsti hluthafinn í lok síðasta árs.  VÍSIR/VILHELM

Vísissjóðurinn Frumtak 2, stærsti hluthafi Controlant, seldi fjórðung af eignarhlut sínum í íslenska tæknifyrirtækinu í fyrra. Hluthöfum fjölgaði töluvert á árinu 2021 og nú eiga fleiri en 90 hluthafar eignarhlut sem er metinn á meira en 100 milljónir króna. Þetta má lesa úr hluthafalista Controlant við árslok 2021 sem Innherji hefur undir höndum.

Efst á hluthafalista Controlant er Danske Bank með 9,6 prósenta hlut en því má slá föstu að bankinn fari með hlutinn fyrir hönd fjölda fjárfesta, bæði íslenskra og erlendra. Stærsti eiginlegi hluthafinn er því vísissjóðurinn Frumtak 2 sem heldur nú á 524 þúsundum hluta sem jafngilda 8,7 prósenta hlutdeild og eru metnir á tæplega 7,9 milljarða króna.

Frumtak 2 átti tæplega 700 þúsund hluti, um 13 prósent af hlutafé, en seldi 175 þúsund hluti í byrjun árs 2021 samkvæmt heimildum Innherja. Skömmu áður, í nóvember 2020, hafði verið greint frá því að Frumtak 1, sem er undir hatti sama sjóðastýringarfélags og keypti sig fyrst inn í Controlant árið 2011, hefði selt rúmlega 11 prósenta hlut sinn fyrir um 2 milljarða.

Næststærsti hluthafinn er eignarhaldsfélagið Stormtré, sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar,  aðaleiganda Veritas. Stomtré keypti 48 þúsund hluti á síðasta ári og á nú tæplega 400 þúsund hluti, sem jafngilda 6 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Gengi óskráðra hlutabréfa Controlant, sem hefur meðal annars verið í lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 fyrir lyfjarisann Pfizer, hefur fimmfaldast á aðeins einu ári og stendur nú í 15.000 krónum á hlut. Nýlega hafa stór viðskipti með bréf í félaginu verið í námunda við þetta gengi, samkvæmt upplýsingum Innherja.

Heildarhlutafé Controlant var rúmlega 6 milljónir króna að nafnvirði í árslok 2021 og var það aukið um liðlega 600 þúsund hluti á árinu. Miðað við gengi bréfanna er markaðsvirði tæknifyrirtæksins um 90 milljarðar króna sem er meira en markaðsvirði meirihluta skráðra félaga í Kauphöllinni.

Controlant þróaði hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast með lyfjum í flutningi svo hægt væri að vakta ástand og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum. Fram kom á hluthafafundi fyrirtækisins í júní síðastliðnum að gert væri ráð fyrir tekjurnar á árinu 2021 myndu nífaldast frá 2020 og verða samtals 63 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 8 milljarða króna. Á þessu ári sé búist við því að tekjurnar vaxi áfram og verði 125 milljónir dala, jafnvirði um 16 milljarða króna.

Tekjuvöxturinn byggir að langmestu á samningum við núverandi viðskiptavini en auk viðskipta við Pfizer, sem hefur staðið undir stærstum hluta teknanna, hefur Controlant meðal annars einnig gert samninga við lyfjafyrirtækin Merck, Roche og GlaxoSmithKline.

Í dag starfa um 350 manns hjá fyrirtækinu, að langstærstum hluta á Íslandi. Hefur fyrirtækið hefði þurft að fjölga starfsmönnum að jafnaði um níu í hverjum mánuði frá því í ársbyrjun 2020

Eignarhaldsfélagið Líra, sem er í eigu hjónanna Halldóru Baldvinsdóttur og Valdimars Bergstað, er þriðja stærsti hluthafinn með 4,7 prósenta hlut sem er metinn á 4,3 milljarða króna. Auk þess er eignarhlutur að virði 710 milljóna skráður á Halldóru og annar eignarhlutur að virði 660 milljóna skráður á félag í hennar eigu. Samtals eiga hjónin tæplega 380 þúsund hluti í Controlant sem jafngilda tæplega 6,3 prósenta hlutdeild og eru metnir á nærri 5,7 milljarða króna.

Á árinu 2021 bættist Arion banki við hluthafahópinn en bankinn tók þátt í skuldabréfaútboði Controlant í mars 2020 og nýtti síðan heimild til skuldbreytingar á genginu 1.250. Núverandi gengi er tólf sinnum hærra og nemur eignarhlutur bankans samkvæmt því um 2 milljörðum króna.

Annar nýr hluthafi er eignarhaldsfélagið NG Invest sem er skráð á danskan stjórnanda hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey. NG Invest er tíundi stærsti hluthafinn en athygli vekur að annar stjórnandi hjá McKinsey, Sigurður Klemenz Hjartar, sem var sjötti stærstu hluthafinn í lok árs 2020, er horfinn af listanum. Ekki er ólíklegt að sá hlutur sé nú skráður í vörslu Danske Bank.

Sjóðastýringarfélagið Akta er í áttunda sæti hluthafalistans en fimm sjóðir í stýringu þess eiga samtals 180 þúsund hluti sem samsvara 3 prósenta eignarhluti. Sjóðir Akta bættu við sig um 66 þúsund hlutum að nafnvirði í Controlant á liðnu ári. 

Enn annar nýr hluthafi er Mótás, félag í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendriks Berndsen, sem hafa starfað saman sem byggingarverktakar um árabil. Eignarhlutur Mótáss, sem varð einn af stærstu hluthöfum fjárfestingafélagsins Stoða í byrjun síðasta árs, nemur 37,5 þúsundum að nafnvirði, en markaðsvirði hans í dag er um 560 milljónir króna.

Hátt í 40 eiga meira en 500 milljónir

Hluthafar Controlant voru 207 talsins í lok síðasta árs og fjölgaði þeim um 60 milli ára. Yfir sama tímabil margfaldaðist gengi hlutabréfa í félaginu og því er ljóst að nokkur fjöldi Íslendinga hefur uppskorið ríkulega af fjárfestingu sinni.

Samkvæmt hluthafalistanum eiga 160 einstaklingar og lögaðilar eignarhlut í Controlant sem er metinn á meira en 10 milljónir króna miðað við gengið 15 þúsund. Þessi hópur er að uppistöðu einstaklingar og eignarhaldsfélög með einn eiganda.

Ef viðmiðið er sett hærra sést að hátt í 120 einstaklingar og lögaðilar eiga meira en 50 milljóna króna hlut í Controlant, fleiri en 90 eiga meira en 100 milljónir í félaginu og hátt í 40 eiga meira en 500 milljónir. Þess ber að geta að eftir því sem farið er ofar á hluthafalistanum eykst hlutfall fjárfestingasjóða sem fara með eignarhlutinn fyrir hönd fjölda fjárfesta.

Þrír stofnendur Controlant koma fyrir í efstu tuttugu sætum hluthafalistans. Gísli Herjólfsson forstjóri er sjötti stærsti hluthafinn með 3,75 prósenta hlut í gegnum félagið HB6, Erlingur Brynjúlfsson tæknistjóri 2,3 prósenta hlut í gegnum félagið SH32 og Trausti Þórmundsson stjórnarmaður á 1,5 prósent í eigin nafni. Samanlagt virði eignarhlutanna nemur 6,9 milljörðum króna.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×