Innherji

Markaðsvirði Controlant nálgast óðum 100 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Gísli Herjólfsson er forstjóri Controlant en markaðsvirði félagsins næstum fimmfaldast á einu ári.
Gísli Herjólfsson er forstjóri Controlant en markaðsvirði félagsins næstum fimmfaldast á einu ári. Vísir/Vilhelm

Ekkert lát er á verðhækkunum á gengi óskráðra hlutabréfa íslenska hátæknifyrirtækisins Controlant, sem hefur meðal annars verið í lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 fyrir lyfjarisann Pfizer, en markaðsvirði félagsins hefur hækkað um nærri fimmfalt á aðeins um einu ári.

Samkvæmt heimildum Innherja voru þannig viðskipti með bréf í Controlant upp á hundruð milljóna króna fyrr í þessari viku á genginu 15.000 krónur á hlut – hlutafé fyrirtækisins var rúmir 6 milljónir hluta að nafnvirði um miðjan síðasta mánuð – sem þýðir að félagið var því metið á meira en 90 milljarða króna.

Á síðustu tveimur mánuðum hefur gengið í stærri viðskiptum með bréf Controlant hækkað um liðlega 20 prósent. Þannig greindi VÍS, sem fjárfesti fyrst í Controlant í fyrra, frá því á uppgjörsfundi í lok október á þessu ári að félagið hefði hækkað verulega verðmat sitt á Controlant og vísaði þá til nýlegra viðskipta með bréf í félaginu á genginu 12.500 krónur á hlut.

Síðustu stóru einstöku viðskiptin með bréf í Controlant voru hins vegar þegar sjóðurinn Frumtak I, sem fjárfesti fyrst í fyrirtækinu 2011, seldi í nóvember á liðnu ári rúmlega 11 prósenta hlut sinn fyrir um 2 milljarða. Fór sú sala fram á genginu 3.200 krónur á hlut og hefur það því margfaldast frá þeim tíma.

Vöxtur Controlant, sem er að miklum meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur verið ævintýralegur en fyrirtækið þróaði hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast með lyfjum og matvælum í flutningi svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum.

Fram kom á hluthafafundi Controlant í júní síðastliðnum að gert væri ráð fyrir tekjurnar á þessu ári nífaldist frá 2020 og verði samtals 63 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 7,9 milljarða króna. Á næsta ári er búist við því að tekjurnar vaxi áfram og verði 125 milljónir dala, jafnvirði um 15,8 milljarða króna.

Tekjuvöxturinn byggir að langmestu á samningum við núverandi viðskiptavini en auk viðskipta við Pfizer, sem hefur staðið undir stærstum hluta teknanna, hefur Controlant meðal annars einnig gert samninga við lyfjafyrirtækin Merck, Roche og GlaxoSmithKline.

Á næsta ári er búist við því að tekjur Controlant vaxi áfram og verði 125 milljónir dala, jafnvirði um 16 milljarðar króna.

Miðað við núverandi markaðsvirði Controlant er félagið verðmætara heldur en meirihluti fyrirtækja í Kauphöllinni. Aðeins Marel, Arion banki, Íslandsbanki, Síldarvinnslan, Brim, Kvika og Síminn eru með hærra markaðsvirði af skráðu félögunum.

Í dag starfa 320 manns hjá fyrirtækinu, að langstærstum hluta á Íslandi, en samkvæmt áætlunum verða þeir orðnir um 350 talsins í árslok.

Í árslok 2020 var sjóðurinn Frumtak II stærsti eigandi Controlant með 12,9 prósenta hlut en aðrir helstu hluthafar félagsins eru meðal annars fjárfestingafélagið Stormtré, sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar, eignarhaldsfélagið Líra, sem er í eigu hjónanna Halldóru Baldvinsdóttur og Valdimars Bergstað, og félagið Kaskur, sem er í eigu Inga Guðjónssonar. Þá fer Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, með um 3 prósenta hlut.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×