Innherji

Innflæði í hlutabréfasjóði meira en fjórfaldast á milli ára

Hörður Ægisson skrifar
Velta með hlutabréf í Kauphöllinni jókst um 75 prósent á árinu 2021.
Velta með hlutabréf í Kauphöllinni jókst um 75 prósent á árinu 2021. VÍSIR/VILHELM

Útlit er fyrir að hreint innflæði í innlenda hlutabréfasjóði á síðasta ári verði samtals um 30 milljarðar króna samhliða miklum verðhækkunum flestra skráða félaga í Kauphöllinni en til samanburðar nam það aðeins tæplega 7 milljörðum á öllu árinu 2020.

Í nóvembermánuði síðastliðnum var hreint innflæði í hlutabréfasjóði upp á tæplega 1,8 milljarða króna en í tilfelli blandaðra sjóða var það um 1,3 milljarður króna. Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands um eignir verðbréfasjóða.

Nær samfellt innflæði hefur verið í hlutabréfasjóði og blandaða sjóði frá vori ársins 2020. Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs nemur uppsafnað innflæði í slíka sjóði, að frádregnu útflæði, samanlagt liðlega 55 milljörðum króna.

Stöðugt innflæði ásamt miklum verðhækkunum í Kauphöllinni hefur valdið því að eignir hlutabréfasjóða hafa bólgnað út á undanförnum misserum. Í lok nóvember námu heildareignir þeirra nærri 154 milljörðum króna og jukust þær um liðlega 60 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2021.

Fjárfesting almennings í slíkum sjóðum hefur aukist talsvert að undanförnu og nema eignir heimila í hlutabréfasjóðum meira en 53 milljörðum króna borið saman við tæplega 30 milljarða í árslok 2020.

Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði þar sem fjárfestar hafa meðal annars verið færa sig úr áhættulitlum eignum, eins og ríkisskuldabréfum og innlánsreikningum, yfir í hlutabréf.

Á síðasta ári jukust hlutabréfaviðskipti í Kauphöllinni um 75 prósent og hækkaði Úrvalsvísitalan um liðlega 33 prósent. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga nam rúmlega 2.500 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkaði það um 63 prósent á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Metár í útgreiðslum gæti skilað fjárfestum nálægt 200 milljörðum

Útlit er fyrir að arðgreiðslur og kaup íslenskra fyrirtækja í Kauphöllinni á eigin bréfum á næsta ári verði sögulega háar og geti samanlagt nálgast hátt í 200 milljarða króna. Það yrði þá tvöfalt meira en áætlað er að slíkar útgreiðslur til hluthafa félaganna hafi numið á árinu 2021, eða rúmlega 80 milljarðar, sem eru engu að síður þær mestu sem sést hafa frá endurreisn hlutabréfamarkaðarins eftir fjármálahrunið 2008.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×