„Það þarf að vera rétta mómentið fyrir svona uppákomur. Við viljum hafa allan varan á og að landinn sé búinn að gleyma, farinn að horfa á bjartari tíma, kominn út úr Covid og farinn að brosa þegar við hendum í Dönsku dagana,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, í samtali við Vísi.
Hagkaup hefur árlega haldið upp á Danska daga snemma árs þar sem boðið er upp á aukið úrval af dönskum vörum og verslanir skreyttar hátt og lágt með fána konungsríkisins.

„Við höfum aðeins verið að skoða ýmsar dagsetningar og þetta allavega styrkti okkur í því að við ættum ekki að hafa þá of snemma þetta árið. Við erum allavega búin að ýta ákvörðuninni aðeins seinna á árið og tökum aftur púlsinn þegar líður á vorið, hvort við teljum að landinn sé tilbúinn þá.“
Þemadagarnir hafa reglulega byrjað seint í febrúar en nú hefur verið tekin ákvörðun um að flýta sér hægt, að sögn Sigurðar.
Ljóst er að gríðarleg óánægja er með úrslit leiks Dana og Frakka þar sem Danmörk tapaði öruggu forskoti sínu seint í leiknum og um leið miða Íslendinga í undanúrslit.
Fleiri fyrirtæki hafa talið sig knúin til að bregðast við niðurstöðunni en veitingastaðurinn Jómfrúin bað í gær íslensku þjóðina afsökunar fyrir hönd dönsku krúnunnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.