Handbolti

Ómar Ingi: Trúðum því í alvörunni að við myndum vinna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon sækir á Henrik Møllgaard.
Ómar Ingi Magnússon sækir á Henrik Møllgaard. getty/Jure Erzen

Ómar Ingi Magnússon var eðlilega svekktur með tap íslenska landsliðsins gegn Danmörku í fyrsta leik milliriðilsins á EM í kvöld. Hann segir að það hafi verið erfitt fyrir hópinn að koma sér í gang fyrir leikinn en að liðið hafi haft raunverulega trú á því að vinna heimsmeistarana í kvöld.

„Það var erfitt og síðasti sólarhringur og meira en það er búinn að vera skrítinn og þetta var ágætis högg í magann fyrir okkur,“ sagði Ómar eftir leik.

„Þetta er búið að vera mjög súrrealískt held ég bara og við reyndum hvað við gátum í dag en þetta var erfitt.“

„Ég er bara stoltur af liðinu fyrir að hafa mætt og virkilega trúað því að við ætluðum að vinna. Það var planið en það gekk ekki alveg eftir í dag. Við spiluðum samt fínan leik.“

Í fjarveru lykilmanna eins og Arons Pálmarssonar og Björvins Páls Gústavssonar þurfti Ómar Ingi að stíga upp og sýna sína leiðtogahæfileika í kvöld.

„Ég bara reyndi að spila góðan leik. Ég var ekkert að pæla mikið í einhverju þannig, bara reyna að taka réttar ákvarðanir og þetta var bara svona allt í lagi hjá mér. Ég hefði getað gert aðeins betur en heilt yfir var þetta bara þokkalegt.“

Aðspurður að því hvort að íslenska liðið geti ekki gengið stolt frá borði miðað við allt sem undan hefur gengið seinasta sólarhringinn segir Ómar að leikmenn liðsins megi alveg vera það.

„Jú, jú. Við erum náttúrulega keppnismenn og við trúðum því í alvörunni að við myndum vinna í dag. Það var planið og við vorum „all-in“ og það er virkilega flott að menn hafi náð að gíra sig í það. Ég er ánægður með það og við vorum að berjast í 60 mínútur,“ sagði Ómar að lokum.

Klippa: Ómar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×