Viðskipti erlent

Leikjarisar sameinast: Microsoft kaupir Activision Blizzard

Samúel Karl Ólason skrifar
Activision Blizzard á fjölmarga vinsæla tölvuleikjaheima.
Activision Blizzard á fjölmarga vinsæla tölvuleikjaheima.

Forsvarsmenn Microsoft hafa skrifað undir kaupsamning á leikjafyrirtækinu Activision Blizzard fyrir 68,7 milljarða dala. Lauslega reiknað samsvarar það tæpum níu billjónum króna eða níu þúsund milljörðum.

Gangi kaupin eftir verður Microsoft eitt stærsta tölvuleikjafyrirtæki heims en með í kaupunum fylgja leikir eins og Call of Duty, World of Warcraft, Starcraft, Overwatch og Diablo, auk annarra.

Í framtíðinni gætu þessir leikir ekki verið fáanlegir á Playstation, sem er helsti samkeppnisaðili xBox leikjatölva Microsoft.

Í frétt Kotaku segir að með tilliti til tekna yrði Microsoft þriðja stærsta leikjafyrirtæki heims, á eftir Tencent og Sony.

Á undanförnum árum hefur Microsoft varið fúlgum fjár í smærri leikjafyrirtæki eins og Bethesda Softworks, sem er hvað þekktast fyrir Fallout og Elder Scrolls leikina. Fyrir það fyrirtæki greiddi Microsoft 7,5 milljarða dala.

Phil Spencer, forstjóri Microsoft Gaming, segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins að þar til samningar klárist og kaupin verði samþykkt af yfirvöldum muni fyrirtækin starfa áfram sem aðskildar einingar.

Ekki liggur fyrir hvað verðu um Bobby Kotick, hinn umdeilda forstjóra Activision Blizzard. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið undir miklum þrýstingi undanfarna mánuði vegna ásakana og rannsókna á „eitraðri“ starfsmenningu og fjölda kvartana kvenna sem þar hafa unnið í gegnum árin.

Sjá einnig: Starfsmenn krefjast þess að forstjóri Activision Blizzard verði rekinn

Fyrirtækinu var líkt við svokallað bræðrafélag (fraternity á ensku) og því haldið fram að konur væru ítrekað áreittar kynferðislega og fengju lægri laun. Þá voru forsvarsmenn AB gagnrýndir fyrir aðgerðarleysi varðandi ábendingar um þessa hegðun.

Vonast er til þess að kaupin gangi í gegn á næsta ári.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×