Innherji

Sjóðurinn sem selur þegar honum þykir nóg um

Ritstjórn Innherja skrifar
Gildi íhugaði að leitast eftir óháðu verðmati í tengslum við kaup Kaldalóns á fasteignum Skeljungs. 
Gildi íhugaði að leitast eftir óháðu verðmati í tengslum við kaup Kaldalóns á fasteignum Skeljungs.  VÍSIR/VILHELM

Það dró til tíðinda í síðustu viku þegar Gildi lífeyrissjóður seldi megnið af eignarhlut sínum í Skeljungi fyrir 2,3 milljarða króna. Gildi var annar stærsti hluthafinn fyrir söluna með tæp 10,7 prósent en fer nú með 2,7 prósent. Það er ekki algengt að lífeyrissjóður selji hlutfallslega svo mikið í skráðu félagi á einu bretti og þegar svo ber undir er yfirleitt sérstök ástæða að baki.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, sagði í samtali við Innherja að sjóðurinn væri sáttur við að innleysa stóran hlut af fjárfestingunni á þessum tímapunkti og vísaði til þess að söluverðið væri umtalsvert hærra en yfirtökutilboðið sem Gildi stóð til boða fyrir ári síðan. Jafnframt að félagið væri mikið breytt og ekki væri skýrt á hvaða vegferð félagið væri.

Vissulega hafa orðið breytingar á starfsemi Skeljungs að undanförnu. Má þar nefna breytingu á yfirlýstum tilgangi félagsins – Skeljungur er nú orðið fjárfestingafélag – en Gildi lagðist ýmist gegn eða sat hjá þegar greidd voru atkvæði um breytingar á samþykktum Skeljungs í október á síðasta ári.

Gildi hefur áður eldað grátt silfur við eigendur Strengs, stærsta hluthafa Skeljungs. Skemmst er að minnast þess að Gildi vildi fá Höskuld Ólafsson, fyrrverandi bankastjóra Arion banka, í stjórn Skeljungs. Sú áform féllu í grýttan jarðveg hjá eigendum Strengs og á endanum dró Höskuldur framboð sitt til baka.

Meira kann þó að búa að baki. Haustið 2019 seldi Gildi allan sinn hlut í Brimi eftir kaup útgerðarfélagsins á erlendum sölufélögum sem voru í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra og stærsta hluthafa Brims. „Vegferðin sem félagið virðist vera á með endurteknum og umfangsmiklum viðskiptum við stærsta hluthafa og forstjóra félagsins er óásættanleg,“ var haft eftir Davíð í kjölfar sölunnar.

Þetta voru ekki fyrstu viðskipti Brims við tengdan aðila. Gildi var kominn með óbragð í munninn eftir að hafa kyngt kaupum Brims á Ögurvík, sem einnig var í eigu Guðmundar. Hafði Gildi farið fram á að gert yrði óháð verðmat á Ögurvík svo að rökstyðja mætti að um hagfelld viðskipti væri að ræða.

Með þetta í huga er vert að rifja upp að fasteignafélagið Kaldalón gerði nýlega samkomulag um að kaupa af Skeljungi 13 fasteignir fyrir 6 milljarða króna. Fjárfestingafélagið Strengur er jú stærsti hluthafinn í bæði Kaldalóni og Skeljungi. Stjórnarmenn Kaldalóns með tengsl við Streng komu þó ekki að ákvörðuninni, að því er kom fram í tilkynningu um kaupin.

Gildi íhugaði að leitast eftir óháðu verðmati á fasteignunum, eftir því sem Innherji kemst næst, rétt eins og sjóðurinn gerði þegar Brim keypti Ögurvík en svo fór að eignarhluturinn var seldur. Ekki er hægt að segja annað en að Gildi skeri sig úr hópi íslenskra lífeyrissjóða þegar kemur að því að beita sér með virkum hætti í samræmi við hluthafastefnuna.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.