Innherji

Tveir af stærstu lífeyrissjóðunum minnka áherslu á ríkisbréfakaup

Hörður Ægisson skrifar
Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti lífeyrissjóður landsins og áformar hann að auka vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni sínu á þessu ári úr 15,6 prósent í 19,5 prósent.
Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti lífeyrissjóður landsins og áformar hann að auka vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni sínu á þessu ári úr 15,6 prósent í 19,5 prósent. Foto: Hanna Andrésdóttir

Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) og Birta lífeyrissjóður stefna báðir að því að draga úr vægi ríkisskuldabréfa í eignasafni sínu á árinu 2022 en á sama tíma áformar LIVE, sem er næst stærsti lífeyrissjóður landsins, að auka hlutfall innlendra hlutabréfa sitt um liðlega fjórðung á milli ára.

Þetta má lesa út úr nýlega birtum fjárfestingarstefnum samtryggingardeilda sjóðanna fyrir 2022 en minnkandi áhersla þeirra á ríkisskuldabréfakaup kemur á tíma og ríkissjóður áætlar að gefa út ríkisbréf fyrir um 160 milljarða króna á þessu ári til að fjármagna mikinn halla á rekstri ríkisins.

Lífeyrissjóður verslunarmanna mun þannig auka vægi innlendra hlutabréfa í fjárfestingarstefnunni – undir þann eignaflokk eru einkum skráð félög í Kauphöllinni – úr 15,6 prósentum í 19,5 prósent á þessu ári en markmið Birtu helst hins vegar óbreytt frá árinu 2021, eða 13,5 prósent.

Hlutfall eigna LIVE, sem er með samtals um 1.100 milljarða króna eignir í stýringu, í íslenskum hlutabréfum af heildareignum sjóðsins stóð í 19,6 prósentum í lok september síðastliðins og var því á pari við fjárfestingastefnuna fyrir núverandi ár. Innlend hlutabréfaeign allra lífeyrissjóða landsins hefur hækkað mikið að undanförnu, samhliða meðal annars uppgreiðslum á sjóðsfélagalánum og miklum verðhækkunum í Kauphöllinni, og nemur hún í dag um 15 prósentum af eignum lífeyrissjóðakerfisins. Hlutfallið hefur ekki verið eins hátt síðan 2007.

Lífeyrissjóðirnir eru langsamlega stærstu fjárfestarnir á íslenskum fjármálamarkaði – þeir eiga samanlagt meðal annars um 40 prósent af hlutafé allra skráðra fyrirtækja landsins – en áætluð nettó fjárfestingarþörf þeirra á hverju ári er talin vera um 300 milljarðar króna.

Bæði LIVE og Birta, sem er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir upp á liðlega 550 milljarða króna, hafa hins vegar sett sér það markmið að minnka nokkuð vægi sitt í skuldabréfum með ábyrgð íslenska ríkisins. Lífeyrissjóður verslunarmanna áformar að ríkisskuldabréf verði 13,9 prósent af eignasafni sjóðsins á árinu 2022 en stefna síðasta árs gerði ráð fyrir að hlutfall þeirra yrði 15,4 prósent. Þá minnkar Birta vægi ríkisskuldabréfa hjá sér um tvö prósentustig, eða úr 17 prósentum í 15 prósent.

Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur ríkisskuldabréfa og bættu þeir nokkuð við hlut sinn á síðasta ári. Áttu sjóðirnir samanlagt 41 prósent af markaðsverði útistandandi ríkisskuldabréfa í lok nóvember í fyrra og jókst það hlutfall um 6 prósentustig á milli ára.

Ríkissjóður áformar sem fyrr segir að gefa út ríkisbréf fyrir um 160 milljarða og þá er einnig stefnt að því að gefa út lengri skuldabréfaflokka – til fimmtán og tuttugu ára – en það ætti að gefa lífeyrissjóðum færi á að verja skuldbindingar sínar betur en áður og á hærri i vöxtum. Sérfræðingar á markaði segjast ekki hafa áhyggjur af lánsfjárþörf ríkissjóðs – henni á til dæmis að mæta einnig með frekari sölu á hlutum í Íslandsbanka og skuldabréfaútgáfu erlendis – og í samtali við Innherja í liðnum mánuði sagði Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu, að „markaðurinn ætti ekki að fá mikla magaverki af útgáfu ríkisbréfa í ár.“

Í fjárfestingarstefnum Birtu og Lífeyrissjóðs verslunarmanna kemur einnig fram að sjóðirnir ætli sér að draga úr vægi fasteignaveðtryggðra skuldabréfa en þar er einkum um ræða lán til sjóðsfélaga vegna íbúðakaupa. Slík sjóðsfélagalán hjá lífeyrissjóðunum hafa minnkað hratt á undanförnum misserum – sem hlutfall heildareignum lífeyrissjóðakerfisins hafa þau minnkað úr 11 prósentum í 7,5 prósent á tveimur árum – en í nóvember í fyrra voru þau hins vegar meiri en sem nemur uppgreiðslum í fyrsta sinn frá því í maí 2020.

Birta hyggst leggja meiri áherslu á fjárfestingar erlendis, einkum í hlutabréfum, á árinu 2022 en fjárfestingarstefna LIVE í þessum eignaflokki tekur hins vegar litlum breytingum á milli ára en sjóðurinn, eins og Innherji hefur áður fjallað um, er nú þegar að nálgast lögbundið 50 prósenta hámark sem erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna mega vera sem hlutfall af heildareignum.

Stjórnvöld skoða nú breytingar á löggjöfinni um starfsemi lífeyrissjóða til að tryggja að þeir geti haldið áfram að fjárfesta utan landsteina eins og forsvarsmenn sjóðanna hafa kallað mjög eftir á undanförnum misserum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Ríkisbréfaeign lífeyrissjóða jókst talsvert í fyrra

Lífeyrissjóðir bættu talsvert við hlut sinn í ríkisskuldabréfum á árinu 2021. Sjóðirnir áttu 41 prósenta af markaðsverði útistandandi ríkisskuldabréfa í lok nóvember í fyrra samanborið við 35 prósent í lok nóvember 2020. Þetta kemur fram í nýútgefinni stefnu ríkissjóðs í lánamálum til ársins 2026.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×