Innherji

Ríkisbréfaeign lífeyrissjóða jókst talsvert í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. Áformað er að gefa út lengri skuldabréfaflokka en hingað til hefur tíðkast. 
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. Áformað er að gefa út lengri skuldabréfaflokka en hingað til hefur tíðkast.  VÍSIR/VILHELM

Lífeyrissjóðir bættu talsvert við hlut sinn í ríkisskuldabréfum á árinu 2021. Sjóðirnir áttu 41 prósenta af markaðsverði útistandandi ríkisskuldabréfa í lok nóvember í fyrra samanborið við 35 prósent í lok nóvember 2020. Þetta kemur fram í nýútgefinni stefnu ríkissjóðs í lánamálum til ársins 2026.

Lífeyrissjóðirnir eru áfram langstærstu eigendur ríkisskuldabréfa en eign þeirra samanstendur að mestu af bréfum með langan líftíma. Eign fjármálastofnana nam 22 prósentum og dróst saman um 3 prósentustig milli ára. Eign verðbréfa- og fjárfestingasjóða nam 15 prósentum og stóð nokkurn veginn í stað en eign erlendra fjárfesta minnkaði úr 6 prósentum í 4 prósent.

Samkvæmt lánamálastefnunni hélst hlutfall óverðtryggðra skulda óbreytt í 56 prósentum. Verðtryggðar skuldir námu 20 prósentum og lækkuðu um 4 prósentustig milli ára, en á móti jókst hlutfall erlendra skulda úr 20 prósent um 24 prósent.

Undir lok árs 2020 fjölluðu viðskiptamiðlar um fjárfestingar lífeyrissjóða í ríkisskuldabréfum. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði sjóðina „að mestu fjarverandi“ þegar kæmi að því að fjármagna ríkissjóð með kaupum á ríkisskuldabréfum á markaði.

Í kjölfarið var haft eftir framkvæmdastjórum tveggja af stærstu lífeyrissjóðum landsins, Almenna lífeyrissjóðinum og LSR, að sjóðirnir hefðu takmarkaðan áhuga á að festa fjármagn í ríkisskuldabréfum eins og staðan var þá.

„Þetta á sérstaklega við þegar útlit er fyrir að fjárfestingarkostum kunni að fara fjölgandi eins og nú er,“ sagði Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna.

„Í ljósi þeirrar ávöxtunarkröfu sem gerð er til lífeyrissjóða og þess lágvaxtaumhverfis sem við búum við í dag, hefur sjóðurinn horft meira til annarra fjárfestingarkosta,“ sagði Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.

Á árinu 2021 hækkaði ávöxtunarkrafan á löngum og óverðtryggðum ríkisskuldabréfum töluvert. Til að mynda hækkaði ávöxtunarkrafa tíu ára bréfa úr 3,2 prósentum upp í ríflega 4 prósent.

Fyrirhugað er að gefa út nýjan tuttugu ára óverðtryggðan flokk á árinu, sem og nýjan fimmtán ára verðtryggðan flokk. Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, sagði áformin mjög jákvæð í samtali við Innherja í gær. 

„Það má reikna með að lengd skuldabréfanna og kjör falli ágætlega í kramið hjá lífeyrissjóðskerfinu þar sem það gefur sjóðunum færi á að verja langar skuldbindingar sínar betur en áður og á hærri vöxtum,“ sagði Agnar Tómas.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka, tók í sama streng. 

„Mér finnst mjög jákvætt að ríkissjóður ætli að gefa út nýja langa flokka. Það samræmist fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og erlendra langtímafjárfesta og býr til raunverulegan viðmiðunarferill langra vaxta og verðbólguvæntinga sem fjármögnun allra annarra í krónum mun taka mið af.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.