Innherji

Vatnsverksmiðja Jóns Ólafssonar tapaði yfir tveimur milljörðum

Hörður Ægisson skrifar
Jón Ólafsson er stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Glacial.
Jón Ólafsson er stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Glacial. VÍSIR/ARNÞÓR/ANTON

Þrátt fyrir áskoranir vegna kórónuveirufaraldursins þá jukust tekjur Icelandic Water Holdings, sem starfrækir vatnsverksmiðju í Ölfusi sem var reist af Jóni Ólafssyni árið 2004, um átta prósent á árinu 2020 og námu samtals tæplega 27 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 3,5 milljarða króna á gengi dagsins í dag.

Félagið, sem tappar vatni á flöskur undir merkjum Icelandic Glacial, var hins vegar rekið með tapi upp á 18,7 milljónir dala, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi Icelandic Water Holdings. Þar af nam fjármagnkostnaður tæplega 6,3 milljónum dala.

Í skýrslu stjórnar félagsins segir að árið hafi markast af faraldrinum sem hafði þau áhrif að toppi í sölu í mars og apríl á árinu 2020, sem rekja má til skyndikaupa í Bandaríkjunum, var síðan fylgt eftir með minnkandi sölu þar sem aðfangakeðjur fyrir hráefni og flutning voru lamaðar vegna sóttvarnartakmarkana sem settar voru á víða um heim.

Megnið af árinu hafi sala á staðnum vestanhafs, sem er aðalmarkaður fyrir Icelandic Glacial, dregist saman en á móti hafi fyrirtækinu tekist að bæta það upp með aukinni smásölu og þá sérstaklega í gegnum netið sem hafi vaxið um 100 prósent á milli ára.

Fjölskylda Jóns, ásamt vinum hans, eiga samanlagt nærri 60 prósenta hlut í fyrirtækinu, einkum í gegnum Tortólafélagið Barak Investment.

Salan á Íslandi, sem hefur verið haldið upp af erlendum ferðamönnum, minnkaði hvað mest á meðal markaðssvæða Icelandic Glacial en hún nam aðeins um 240 þúsund Bandaríkjadölum á árinu 2020 og dróst saman um nærri 80 prósent frá fyrra ári. Sala á erlendum mörkuðum jókst hins vegar um tæplega þrjár milljónir dala.

Eigið fé félagsins var 43 milljónir dala í árslok 2020 og eiginfjárhlutfallið stóð í 34 prósent.

Vatnsból félagsins metið á 18 milljarða 

Í ársreikningnum kemur fram að nýtt verðmat á vatnsbólum félagsins hafi verið framkvæmt á árinu 2021 og var virði þess fært lítillega upp við þá vinnu, eða úr 135 milljónum dala í 137 milljónir dala. Endurmatið hefur ekki verið fært upp í ársreikningi en þar eru fasteignir og vatnsréttindi bókfærð á samtals 96,5 milljónir dala.

Í ágúst á árinu 2019 var hlutafé Icelandic Water Holdings aukið um 31 milljón dala, sem bæði núverandi og nýir fjárfestar lögðu til, auk þess sem félagið tryggði sér 35 milljóna dala lán frá skuldabréfasjóði í stýringu BlackRock. Við þá endurfjármögnun var bókfærður 24 milljóna dala fjármagnshagnaður sem þýddi að félagið skilaði tæplega 14 milljóna dala hagnaði á árinu 2019.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×