Handbolti

„Eld­móður er í hópn­um og ofboðslega góður andi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson ræðir við Ými Örn Gíslason.
Guðmundur Guðmundsson ræðir við Ými Örn Gíslason. vísir/vilhelm

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segir enga óskastöðu að hafa ekki fengið æfingaleiki fyrir Evrópumótið sem hefst á fimmtudaginn.

Ísland átti að mæta Litáen í tveimur leikjum á Ásvöllum. Ekkert varð af þeim eftir að Litáar hættu við að koma til landsins. Og það var kannski eins gott því einn leikmaður liðsins er smitaður af kórónuveirunni.

Ísland hefur ekki leikið landsleik síðan 2. maí í fyrra. Íslenska liðið vann þá Ísrael, 39-29, í síðasta leik sínum í undankeppni EM. Átta mánuðir eru því frá síðasta landsleik.

„Þetta er engin óskastaða. Liðin leggja mikla áherslu á að fá leiki. En við getum ekki breytt því. Vonandi verður þetta nægilega góður undirbúningur,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundi í dag. Að hans sögn eru allir leikmennirnir í íslenska hópnum heilir heilsu og klárir í slaginn.

Held og vona að það hafi verið rétt ákvörðun

Íslenska liðið hefur æft stíft undanfarna daga og spilað tvo innbyrðis æfingaleiki. Liðið hefur verið í búbblu á Grand hótel til að forðast kórónuveirusmit.

„Það var tekin sú ákvörðun að fara með hópinn í svokallaða vinnustaðasóttkví. Ég held og vona að það hafi verið rétt ákvörðun,“ sagði Guðmundur.

„Það hefur ekki enn greinst smit síðan við komum saman hér heima og það eru jákvæð tíðindi. Vonandi verður það þannig áfram. Leik­menn­irn­ir eru mjög ein­beitt­ir og hafa gert þetta ein­stak­lega fag­lega. Auðvitað hef­ur reynt á menn að vera í hálf­gerðri ein­angr­un en ég verð að hrósa þeim fyr­ir hversu fag­lega þeir hafa nálg­ast þetta. Ég finn fyr­ir því að það er eld­móður er í hópn­um og ofboðslega góður andi. Ég held að leik­menn hafi líka kynnst bet­ur í þess­um aðstæðum. Menn eru full­ir til­hlökk­un­ar. Eins og leik­menn hlakka ég til að glíma við þetta.“

Stærra hlutverk Ágústs

Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Val og aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins, er nýr í þjálfarateymi karlalandsliðsins. Hlutverk hans stækkaði eftir að aðstoðarþjálfarinn Gunnar Magnússon smitaðist af veirunni.

„Hann var fenginn til að fókusa á markverði. Gunnar hefur verið í einangrun og ekki verið með. En við tökum upp allar æfingar og höfum svo greint þær eftir á. Gunnar hefur séð þær allar,“ sagði Guðmundur.

„Fyrir vikið hefur Ágúst verið virkari inn í sal. Hans aðaláhersla hefur verið á markverðina og hann heldur utan greiningu á skotum og annað slíkt.“

Íslenska liðið heldur til Búdapest á morgun. Fyrsti leikur þess á EM er svo gegn Portúgal á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×