Handbolti

Er á Ís­landi en má ekki fara heim til að hjálpa konunni með börnin þeirra fjögur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson með syni sínum eftir sigur í bikarúrslitaleiknum í haust.
Björgvin Páll Gústavsson með syni sínum eftir sigur í bikarúrslitaleiknum í haust. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson er að undirbúa sig fyrir sitt fimmtánda stórmót með íslenska landsliðinu en vegna kórónuveirunnar er undirbúningurinn afar sérstakur þetta árið.

Hingað til hefur Björgvin Páll getað verið heima hjá sér á meðan íslenska liðið er að æfa hér á landi en það er ekki þannig núna.

Íslenska liðið hefur verið æfingar hér á landi frá 3. janúar eða í eina viku en Björgvin Páll þurfti að kveðja konuna og börnin þeirra fjögur þegar lokaundirbúningurinn hófst. Íslenski hópurinn fór nefnilega inn í sóttvarnarkúlu og gistir á hóteli fram að brottförinni á Evrópumótið á Ungverjalandi á morgun.

Björgvin Páll ræddi þessa fjarveru sína frá heimilinu í viðtali við Ríkisútvarpið en það er ekki langt síðan að hann og eiginkonan Karen Einarsdóttir eignuðust sitt fjórða barn saman.

Björgvin og Karen eiga fjögur börn á skóla- og leikskólaaldri og hann sagðist í viðtalinu hafa meiri áhyggjur af því að kórónuveiran berist inn á heimili þeirra en inn í íslenska landsliðshópinn.

Emma dóttir þeirra verður níu ára á árinu og tvíburarnir Emilía og Einar urðu fjögurra ára í nóvember. Yngsta barnið er Eva sem hélt upp á eins árs afmæli sitt í lok síðasta árs.

„Konan mín er bara á sínu EM, smá challenge með fjögur börn. Ég hef meiri áhyggjur af Covid-málum þar af því að ég er mjög fjögur börn á leikskóla- og skólaaldri. Það er mikið af smitum á þeim bæjum,“ sagði Björgvin Páll í viðtalinu.

„Ég bíð bara eftir þeim fréttum að þetta sé komið inn á heimilið en „so far, so good“ en ég bara óska henni góðs gengis í því og hún mér hér. Þetta eru okkar tvær baráttur sem við þurfum að herja á sitthvorum staðnum,“ sagði Björgvin en það má hlusta á allt viðtalið með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×