Viðskipti innlent

Leita til Hæsta­réttar og starfa á­fram í greiðslu­skjóli

Atli Ísleifsson skrifar
Þórir Garðarsson er framkvæmdastjóri Gray Line á Íslandi.
Þórir Garðarsson er framkvæmdastjóri Gray Line á Íslandi. Vísir/Arnar

Allrahanda GL, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line, hyggst leggja fram beiðni um kæruleyfi til Hæstaréttar eftir að Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna staðfestingu nauðasamnings félagsins. Á meðan á því ferli stendur frestast rétttaráhrif úrskurðar Landsréttar og heldur Allrahanda GL því áfram rekstri í greiðsluskjóli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að niðurstaða Landsréttar byggi ekki á sömu forsendum og héraðsdómur gerði, heldur á túlkun á tímamörkum í ákvæðum laga nr. 57/2020 um fjárhagslega endurskipulagningu vegna áhrifa heimsfaraldursins.

„Allrahanda GL er ekki sammála niðurstöðu Landsréttar með hvaða hætti ákvæði laganna um framangreind tímamörk beri að túlka og mun freista þess að fá úrskurðinn endurskoðaðan í Hæstarétti,“ segir í tilkynningunni.

Innherji fjallaði um úrskurð Landsréttar í gær, en Allrahanda GL hefur verið í greiðsluskjóli frá því í júní árið 2020.

Félögin Allrahanda og GL Iceland eru í 51 prósenta eigu Þóris Garðarssonar, framkvæmdastjóra Gray Line á Íslandi, og Sigurdórs Sigurðssonar en framtakssjóðurinn Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða, fer hins vegar með 49 prósenta hlut.


Tengdar fréttir

Staðfestir úrskurð héraðsdóms um að hafna nauðasamningi Gray Line

Landsréttur staðfesti fyrr í dag úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur frá því í nóvember síðastliðnum um að hafna staðfestingu nauðasamnings Allrahanda GL sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line en það hefur verið í greiðsluskjóli frá því í júní árið 2020.

Héraðs­dómur hafnaði nauða­samningi Gray Line

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun að staðfesta nauðasamning Allrahanda GL ehf. sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line. Félagið hyggst áfrýja niðurstöðunni til Landsréttar en það hefur verið í greiðsluskjóli frá því á seinasta ári.  





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×