Körfubolti

„Bara eins og eitthvað sem maður fékk á hverjum einasta vetri heima á Íslandi“

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson er lykilmaður í liði Valencia en missti af fyrsta leik ársins vegna þeirra reglna sem gilda varðandi kórónuveirusmit.
Martin Hermannsson er lykilmaður í liði Valencia en missti af fyrsta leik ársins vegna þeirra reglna sem gilda varðandi kórónuveirusmit. Getty/Borja B. Hojas

Körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson missti af fyrsta leik spænska liðsins Valencia á nýju ári eftir að hafa ásamt konu sinni og syni smitast af kórónuveirunni. Martin fann varla fyrir veikindum og stefnir á að spila á sunnudag.

Valencia mætti Bursaspor frá Tyrklandi í Eurocup í gærkvöld og vann öruggan sigur, 86-68, þrátt fyrir að vera án Martins og fleiri leikmanna. Martin vonast eftir því að geta mætt Unicaja Malaga á sunnudag í spænsku úrvalsdeildinni.

„Ef maður vissi ekki að þetta væri Covid þá hefði maður tekið einn dag heima og svo bara áfram gakk. Eins og hver önnur flensa,“ sagði Martin sem var í viðtali við útvarpsþáttinn Boltinn lýgur ekki, í gær.

Klippa: BLE hringir í Martin Hermannsson

„Ég slapp bara fáránlega vel. Ég fékk smá hósta, ekki fallegan, í 2-3 daga. Þetta var bara eins og eitthvað sem maður fékk á hverjum einasta vetri heima á Íslandi. Konan var með hausverk í tvo daga og litli maðurinn fékk hita í einn dag,“ sagði Martin.

„Við eigum Malaga á sunnudaginn og það er stefnan að vera búinn að fá tvö neikvæð próf fyrir þann leik,“ bætti hann við.

Valencia er í harðri baráttu í spænsku deildinni þar sem 8 af 18 liðum fara í úrslitakeppni. Liðið er sem stendur í 5.-9. sæti með átta sigra og sex töp, einum sigri meira en Malaga fyrir útileikinn á sunnudag, sem sýndur verður á Stöð 2 Sport 2. Real Madrid er á toppnum með 14 sigra og 1 tap en Barcelona er næst með 11 sigra og 2 töp.


Spænski körfuboltinn, ACB, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. ACB er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.