Innherji

Starfsemi háskólans skipt upp og framhaldsskólinn ekki nefndur í uppstokkun Stjórnarráðsins

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Magnús Þorkelsson skólameistari Flensborgar.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Magnús Þorkelsson skólameistari Flensborgar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir brýnt að skilgreindar háskólastofnanir falli undir eitt og sama ráðuneyti en sé ekki dreift um stjórnkerfið í umsögn sinni um umfangsmiklar breytingar á Stjórnarráði Íslands sem kynntar voru við myndun nýrrar ríkisstjórnar í lok nóvember.

Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans segir í sinni umsögn stöðu framhaldskólans þurfa að vera skýra og ljóst undir hvaða ráðherra skólastigið heyrir.

„Það virðist sem eitt ráðuneyti taki á málefnum barna upp að 18 ára aldri og þar með þeim skólastigum sem því aldursbili tilheyra. Það er hins vegar ekki nóg," segir Magnús sem ritar umsögnina í samráði við Kristinn Þorsteinsson, formann Skólameistarafélagsins og skólameistara FG.

Framhaldsskólastigið ekki hugsað til enda

„Af lestri tillögunnar fæ ég með góðu móti ekki séð að hugsað hafi verið til enda hver staða framhaldsskólans er í þessum máli. Nýskipaður ráðherra hefur rætt um börn á framhaldsskólastigi, sem eru þá nemendur undir 18 ára aldri. Hvað með önnur þrep þess?” spyr Magnús og segir bagalegt að framhaldsskólinn sé hvergi nefndur á nafn í þingsályktunartillögu forsætisráðherra um fyrirhugaða uppstokkun á ráðuneytum í Stjórnarráðinu.

„Það þarf að skoða hvernig hagur og nám tveggja þriðju hluta nemenda á framhaldsskólastigi verði skilgreindur inn í þetta nýja og spennandi kerfi,” segir Magnús og á þar við nemendur yfir 18 ára aldri.

Af lestri tillögunnar fæ ég með góðu móti ekki séð að hugsað hafi verið til enda hver staða framhaldsskólans er í þessum máli.

Níu umsagnir höfðu þegar borist um málið í gær úr ólíkum áttum, en viðbúið er að fjöldi umsagna frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins um framtíðarskipan Stjórnarráðsins muni berast síðar í dag þegar umsagnarfresturinn rennur út.

Grunnstarfsemi háskólans undir tveimur ólíkum ráðuneytum

Í umsögn Jóns Atla vísar hann til þess að stofnanir sem starfa í mjög nánum tengslum við Háskóla Íslands verði ekki vistaðar í sama ráðuneyti og háskólar, það er ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar heldur í ráðuneyti menningar og viðskipta.

Er þar einkum átt við Landsbókasafn Íslands - háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðminjasafn Íslands. „Stofnanir sem allar eru staðsettar á háskólalóðinni og eru órjúfanlegur hluti fræða- og vísindastarfs háskólans,” segir í umsögninni.

Stofnanirnar sem um ræðir eru að lögum skilgreindar sem háskólastofnanir. „Í þeirri merkingu að þar eru stundaðar rannsóknir og veitt þjónusta í nánu samstarfi við háskóla og í þeirra þágu, segir Jón Atli enn fremur og segir stofnanirnar þrjár í reynd hluta af grunnstoðum háskólastarfseminnar.

Stofnanir sem allar eru staðsettar á háskólalóðinni og eru órjúfanlegur hluti fræða- og vísindastarfs háskólans.

Jón Atli segir Háskóla Íslands leggja ríka áherslu á að til þess verði sérstaklega horft við staðsetningu stofnana innan nýrra ráðuneyta að framangreindar þrjár stofnanir falli undir ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×