Innherji

Minni hækkun en 100 punktar hefði verið „veikleikamerki“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Brött vaxtahækkun Seðlabankans kom markaðinum nokkuð á óvart. 
Brött vaxtahækkun Seðlabankans kom markaðinum nokkuð á óvart.  Vísir/Vilhelm

Seðlabanki Íslands hefði sýnt „veikleikamerki“ ef peningastefnunefnd bankans hefði hækkað stýrivextir um 75 punkta eða minna að sögn skuldabréfamiðlara hjá Arion banka. Lækkun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði eftir vaxtaákvörðunina sé merki um að brött vaxtahækkun hafi verið rétt ákvörðun.

Peningastefnunefnd hækkaði meginvexti bankans um eina prósentu – úr 6,5 prósentum í 7,5 prósent – í gær en hækkunin var heldur meiri en flestir greinendur og markaðsaðilar höfðu spáð fyrir um.

Samkvæmt könnun Innherja, sem var gerð á dögunum 16. til 17. mars, taldi mikill meirihluti markaðsaðila sem tók þátt í henni – greinendur, sjóðstjórar og hagfræðingar – að vextir yrðu hækkaðir um 75 punkta eða meira. Aðeins 5 af 22 þátttakendum spáði því hins vegar að þeir yrðu hækkaðir um 100 punkta.

Gunnar Örn Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion banka, nefnir þrjá ástæður fyrir því að minni vaxtahækkun sé óæskileg á þessum tímapunkti. Í fyrsta lagi hafi verðbólgan farið upp í tveggja stafa tölu sem leiddi til þess verðbólguspá Seðlabankans frá því í febrúar varð strax úrelt.

Gunnar Örn Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion.

Í öðru lagi hafi verðbólguálag á skuldabréfamarkaði „þrusast upp“ frá vaxtaákvörðuninni í febrúar. 

„Það á ekki að gerast með svona afgerandi hætti ef bankinn hefur trúverðugleika,“ segir Gunnar Örn.

Þá bendir hann á að á febrúarfundi peningastefnunefndar hafi verið rætt um 50 til 100 punkta hækkun en nefndin hafi hins vegar valið minnstu mögulegu hækkunina.

„Með þessa þrjá þætti í huga var ekkert annað í stöðunni en að taka 100 punkta stökk, annað hefði verið veikleikamerki,“ segir Gunnar Örn.

„Enda sáum við verðbólguálag á skuldabréfamarkaði fara niður í gær um rúmlega 10 punkta. Það er afar jákvætt að mínu mati.“

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar var nefnt að við þær aðstæður sem séu uppi sé mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í samtali við Innherja að með brattri vaxtahækkun vonaðist Seðlabankinn til þess að ná áþreifanlegum árangri í baráttunni við verðbólguna áður en aðilar vinnumarkaðarins hefja aftur samningaviðræður í haust.

„Það er forsenda þess að verkalýðsfélögin hafi eitthvað traust til þess að gera samninga þar sem horft er fram á veginn í stað þess að verið sé að reyna ná til baka töpuðum kaupmætti vegna verðbólgu. Við höfum því ekki svakalega mikinn tíma til stefnu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×