Körfubolti

Hefur aldrei látið húð­flúra hægri hand­legginn þar sem hann er „að­eins til að skora með“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikill munur er á handleggjum Malik Monk.
Mikill munur er á handleggjum Malik Monk. Katelyn Mulcahy/Getty Images

Það hefur ekki mikið gengið upp hjá Los Angeles Lakers það sem af er leiktíð í NBA-deildinni en Malik Monk hefur hins vegar komið skemmtilega á óvart þar sem ekki var búist við miklu af leikmanni sem Charlotte Hornets leyfði að fara á frjálsri sölu í sumar.

Malik Monk verður 24 ára gamall þann 4. febrúar næstkomandi. Charlotte Hornets valdi hann í nýliðavalinu árið 2017 og voru miklar vonir bundnar við leikmanninn sem var sá 11. í valinu það árið.

Vera hans í Charlotte var hins vegar enginn dans á rósum og á endanum fékk hann ekki áframhaldandi samning hjá félaginu. Hann var því frjáls ferða sinna í sumar en í viðtali við The Athletic segir Monk að fá félög hafi verið spennt yfir því að fá hann í sínar raðir.

Á endanum samdi hann við Los Angeles Lakers á töluvert lægri samning en hann hefði reiknað með fyrir nokkrum árum. Hann endaði á að skrifa undir svokallaðan eins árs lágmarkssamning við Lakers.

„Það var frekar þungt högg þegar enginn vildi fá mig fyrir utan Lakers. Það var virkilega erfitt,“ sagði Monk meðal annars í viðtalinu.

Nick Young er átrúnaðargoð Monk, að vissu leyti þar að segja.vísir/getty

Það virðist vera kaldhæðni örlaganna að Monk sé mættur til Lakers en ástæða þess að leikmaðurinn hefur ekki enn látið húðflúra hægri handlegg sinn eru ummæli sem fyrrverandi leikmaður Lakers lét hafa eftir sér um árið.

Nick Young fer ekki beint í sögubækurnar fyrir frammistöður sínar í treyju Los Angels Lakers. Þrátt fyrir að vera með fjölda húðflúra þá var hægri handleggur Young algjörlega laus við allt blek.

Ástæðan var einföld, hægri handleggurinn var eingöngu til að skora með (e. strictly for buckets). Þetta tengdi Monk við og hugsaði með sér „nú er komið að mér.“

Þó Monk hafi ekki raðað inn stigum í treyju Hornets og látinn fara frítt í sumar þá hefur hann heldur betur fundi sig í Englaborginni. Hann er stór ástæða þess að Lakers hefur unnið síðustu þrjá leiki og virðist mögulega vera að rétta úr kútnum.

  • Í stórsigrinm á Portland Trail Blazers skoraði Monk 18 stig. Aðeins LeBron James skoraði fleiri stig í liði Lakers.
  • Í naumum sigri á Minnesota Timberwolves skoraði Monk 22 stig. Aðeins LeBron James skoraði fleiri stig í liði Lakers.
  • Í sigrinum á Sacramento Kings skoraði Monk 24 stig. Aðeins LeBron James skoraði fleiri stig í liði Lakers.

„Þú verður alltaf að veðja á sjálfan þig,“ sagði Monk að endingu við The Athletic. Hann missti ekki trú á sjálfum sér og er nú að uppskera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×