Umræðan

Þrjár lexíur á liðnu ári

Bjarni Benediktsson skrifar

Við áramót er gott að líta um öxl og horfa gagnrýnum augum yfir það sem á undan er gengið. Hér eru þrjár lexíur sem standa í mínum huga upp úr á liðnu ári.

1. Fyrirhyggja borgar sig

Það skiptir máli að sýna fyrirhyggju þegar vel árar. Samhliða öflugri innviðauppbyggingu nýttum við uppsveifluna til að búa í haginn fyrir óvænt áföll. Það var ekki alltaf vinsælt og margir töldu rétt að auka útgjöld í allt milli himins og jarðar frekar en að greiða niður skuldir. Sú stefna skilaði sér hins vegar þegar á reyndi og á traustum grunni gátum við tekist á við heimsfaraldurinn af krafti. 

Við stóðum með heimilum og fyrirtækjum í þeirri trú að umfangsmikil tímabundin útgjöld myndu skila sér til baka þegar upp væri staðið.

Afraksturinn sjáum við í hröðum viðsnúningi síðustu mánuði. Atvinnuleysi hefur snarminnkað og er nú á svipuðum stað og fyrir faraldurinn, en störf eru 20 þúsund fleiri nú en í ársbyrjun 2021. Afkoma ríkissjóðs stórbatnar milli ára og skuldahorfur eru betri en flestir þorðu að vona. Á traustum grunni getum við vaxið út úr vandanum, í stað þess að skera niður og hækka skatta.

2. Ríkið þarf ekki að eiga allt

Í síðasta stjórnarsáttmála sögðumst við ætla að draga úr eignarhaldi ríkisins í bankakerfinu, sem er óvíða meira en hér á landi. Fyrsta skrefið var tekið í sumar með sölu 35 prósenta hlutar í Íslandsbanka í opnu útboði og skráningu bankans á markað. 

Afkoma ríkissjóðs stórbatnar milli ára og skuldahorfur eru betri en flestir þorðu að vona. Á traustum grunni getum við vaxið út úr vandanum, í stað þess að skera niður og hækka skatta.

Margföld umframeftirspurn var eftir bréfunum og bankinn var orðinn fjölmennasta skráða almenningshlutafélagið að útboðinu afstöðnu. Mikil þátttaka almennings var sérstaklega ánægjuleg, en við lögðum áherslu á að tekið yrði við áskriftum allt niður í 50 þúsund krónur. 

Ríkissjóður fékk gott verð fyrir selda hluti og verðmæti eftirstandandi hlutar jókst síðan umtalsvert fram eftir árinu.

Vel heppnað söluferli er áminning um að ríkisrekstur er ekki upphaf og endir alls. Á fjármálamarkaði á ríkið að setja reglur og skapa umgjörð fyrir heilbrigt umhverfi, en eftirláta öðrum að taka áhættuna og keppa um viðskiptavinina. Með áframhaldandi sölu á komandi árum ætlum við að færa almannafé úr áhætturekstri yfir í uppbyggingu innviða og niðurgreiðslu skulda um leið og bankaumhverfið færist nær því sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.

3. Stöðugleikinn skiptir máli

Síðustu misseri höfum við fundið á eigin skinni hvað stöðugleikinn skiptir miklu máli. Verðbólga hefur haldist innan hóflegra marka og vextir hafa verið lágir í sögulegu samhengi. Þúsundir Íslendinga hafa því getað endurfjármagnað lánin sín með tilheyrandi lægri afborgunum. 

Kaupmáttur hefur aukist þrátt fyrir efnahagsáfallið og hefur aldrei verið meiri, en undanfarin ár hafa ráðstöfunartekjur aukist mest hjá tekjulægri hópum.

Með áframhaldandi sölu á komandi árum ætlum við að færa almannafé úr áhætturekstri yfir í uppbyggingu innviða og niðurgreiðslu skulda.

Þessa stöðu þurfum við að verja af öllum mætti, bæði í komandi kjaraviðræðum og ákvörðunum um útgjöld hins opinbera næstu misseri. Áherslan má ekki vera á skammtíma ávinning á kostnað velferðar til lengri tíma. Með samstilltu átaki getum við stuðlað að bættu umhverfi og raunverulegum framförum á nýju ári, öllum til hagsbóta.

Höfundur er fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Litaspjald lífsins

Þegar litbrigðin með allri sinni fegurð færast hægt og rólega yfir Ölfusið á notalegri morgunstund og norðurljósin stíga villtan dans að kvöldi, er eins og náttúran minni á fegurðina og alla liti lífsins. Sá margbreytileiki er ekki sjálfgefinn.

2021: Slæmt ár fyrir frjálslyndi og frelsi

Árið 2021 markaðist af auknu valdi kerfisins, skertum áhrifum lýðræðis og framsókn hinnar nýju rétttrúnaðarreglu. Á árinu 2021 birtust ótvíræð merki um að mistekist hefði að læra af sögunni og því væri verið að endurtaka fyrri mistök og fórna um leið árangri liðinna ára.

Velsæld og verðmætasköpun nýrra tíma

Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem breytingar gagnast samfélaginu öllu, að þau tækifæri sem þær fela í sér nýtist öllum og við fylgjum skýrri framtíðarsýn. Að tryggja að breytingarnar auki verðmætasköpun sem öll fá sanngjarna hlutdeild í og treystir velsæld alls almennings. Þetta er verkefni næstu ára.

Hugleiðingar í lok árs 2021

Í stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs má heyra hjartslátt samfélagsins. Í honum ríkir bjartsýni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×