Körfubolti

Skeggi hélt áfram að hrella Los Angeles-liðin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Harden minnti heldur betur á sig gegn Los Angeles Clippers.
James Harden minnti heldur betur á sig gegn Los Angeles Clippers. getty/Will Navarro

Eftir misjafna frammistöðu á tímabilinu sýndi James Harden allar sínar bestu hliðar þegar Brooklyn Nets vann Los Angeles Clippers, 108-124, í NBA-deildinni í nótt.

Harden skoraði 39 stig og gaf fimmtán stoðsendingar. Hvoru tveggja er persónulegt met hjá honum í vetur. Hann fylgdi þar með eftir góðri frammistöðu sinni í sigri Brooklyn á hinu Los Angeles-liðinu, Lakers, á jóladag þar sem hann skoraði 36 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Nic Claxton og Patty Mills skoruðu átján stig hvor fyrir Brooklyn sem er í efsta sæti Austurdeildarinnar.

Liðið í 2. sæti Austurdeildarinnar, Chicago Bulls, vann sinn fjórða leik í röð þegar það sótti Atlanta Hawks heim, 118-130.

DeMar DeRozan heldur áfram að spila vel og skoraði 35 stig og gaf tíu stoðsendingar. Zach LaVine var með þrjátíu stig og níu stoðsendingar og Nikola Vucevic skoraði 24 stig og tók sautján fráköst.

Trae Young sneri aftur í lið Atlanta og skoraði 29 stig og gaf níu stoðsendingar. Cam Reddish var stigahæstur Haukanna með 33 stig.

Ja Morant tryggði Memphis Grizzlies sigur á Phoenix Suns, 113-114, í hörkuleik í Arizona. Morant skoraði sigurkörfuna þegar hálf sekúnda var eftir.

Morant lauk leik með 33 stig og Desmond Bane var með 32 stig. Memphis hefur komið skemmtilega á óvart í vetur og er í 4. sæti Vesturdeildarinnar.

Devin Booker skoraði þrjátíu stig fyrir Phoenix sem hefur tapað tveimur leikjum í röð en er enn í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Úrslitin í nótt

  • LA Clippers 108-124 Brooklyn
  • Atlanta 118-130 Chicago
  • Phoenix 113-114 Memphis
  • Minnesota 108-103 Boston
  • San Antonio 104-110 Utah
  • Charlotte 123-99 Houston
  • Portland 117-132 Dallas

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.