Innherji

Áskoranir og sóknarfæri 2022: Einstaklega mikilvægt að vel takist til við kjarasamningsborðið

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hildur Þorgerður Ásdís

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásdís Kristjánsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar eru sammála um að helstu áskoranir næsta árs snúi annars vegar að skynsamlegri lendingu við kjarasamningsborðið og hins vegar að því að atvinnulífinu sé gert auðveldara um vik að ná fyrri krafti eftir heimsfaraldurinn.

Innherji leitaði til þeirra til að grennslast fyrir um hverjar þær teldu helstu áskoranir atvinnulífsins á næsta ári en ekki síður hvar sóknarfærin liggja, að þeirra mati.

Ásdís segir óhugsandi að atvinnulífið geti tekið á sig launahækkanir til viðbótar við þær hækkanir sem þegar hafa átt sér stað. Þorgerður segir lausatök í ríkisfjármálum ýta undir verðbólgu og meiri vaxtahækkanir á erfiðum tímum og Hildur segir það blasa við að atvinnulífið geti ekki frekar en samfélagið verið „til langframa í neyðarástandsham.”

Sameiginlegir hagsmunir launafólks og atvinnulífs sé stöðugleiki

Þorgerður bendir á að langsamlega stærsta áskorun atvinnulífsins á næsta ári verði gerð nýrra skynsamlegra kjarasamninga. „Kjarasamningar þurfa að stuðla að nýjum stöðugleika í þjóðarbúskapnum.” 

Hún segir markmiðið hljóta að vera að tvíþætt. „Í fyrsta lagi að verja kaupmátt launa við ríkjandi aðstæður. Í öðru lagi að leggja grunn að sterkari samkeppnisstöðu útflutningsgreina og stuðla þannig að bættum kaupmætti til lengri tíma. Það er allra hagur,” segir hún.

„Verðbólgan stefnir í að verða tvöfalt hærri en verðbólgumarkmið stjórnvalda. Það er ekki stöðugleiki. Sameiginlegir hagsmunir launafólks og atvinnulífs felast í því að endurheimta stöðugleikann,” útskýrir Þorgerður.

Verði að breyta leikreglunum - kjarasamningslíkanið sé mölbrotið

Ásdís segir viðbúið að árið muni litast af kjarasamningsviðræðum. 

„Vonandi mun okkur lukkast að forðast átök á vinnumarkaði. Við blasir hins vegar flókin staðan. Síðustu tvö ár hafa verið afskaplega erfið fyrir mörg fyrirtæki sem hafa starfað á takmörkuðum afköstum með tilheyrandi tekjufalli. Eðli máls samkvæmt er óhugsandi að þau geti tekið á sig launahækkanir til viðbótar við þær hækkanir sem þegar hafa átt sér á þessum skrýtnu tímum,” segir Ásdís.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Drífa Snædal, forseti ASÍ, í Karphúsinu við undirritun Lífskjarasamningsins. Aðstoðarframkvæmdastjóri SA segir kjarasamningslíkanið mölbrotið og að leikreglum á vinnumarkaði verði að breyta.vísir/vilhelm
„Til þessa þarf að taka tillit til í næstu kjaralotu sem verður mikil áskorun. Því miður er íslenska kjarasamningslíkanið mölbrotið. Vinnubrögð á íslenskum vinnumarkaði hafa ítrekað grafið undan efnahagslegum stöðugleika, valdið miklum skaða með þeim afleiðingum að allir tapa. Sú saga mun endurtaka sig nema gagnlegar breytingar verði gerðar á þeim leikreglum sem gilda á vinnumarkaði - það er aðeins á færi stjórnvalda að breyta þeim," útskýrir Ásdís.

Atvinnulífið geti ekki verið til langframa í neyðarástandsham

Hildur nefnir einnig að áskoranir íslensks atvinnulífs muni áfram snúa að faraldrinum. „Og því að atvinnulífið verði aftur sjálfbært og skili samfélaginu tekjum þrátt fyrir hann. Hjólin hafa sem betur fer snúist hraðar í gang aftur eftir að við færðumst nær eðlilegu ástandi fyrr á árinu. Hins vegar ljóst að áskoranir atvinnulífsins vegna hans eru ekki á förum,” segir Hildur.

„Það á að vera verkefni okkar að gera atvinnulífinu eins auðvelt fyrir og hægt er að ná fyrri krafti og um leið reyna að tryggja að samfélagið gangi sem eðlilegast fyrir sig."

Það segir sig sjálft að atvinnulífið getur ekki frekar en samfélagið verið til langframa í neyðarástandsham. Það stuðlar meðal annars að skuldasöfnun og getur fljótt orðið að vondum spíral niður á við,” segir Hildur.

Ríkið eiga að tryggja gott umhverfi fyrir kraftinn sem býr í atvinnulífinu

Hildur segir sóknarfæri þó leynast í þeim miklu breytingum sem eru að verða á samfélaginu. 

„Hegðunarmynstur fólks hefur verið að breytast hratt, ekki síst síðustu tvö ár og mun halda áfram að gera. Margir hafa náð að nýta tækifærin, leyst vandamál eða uppfyllt þarfir sem upp hafa komið og orðið þannig að gagni. Það má nefna samgöngur, netverslanir, sérhæfða framleiðslu, fjarskipti, fjártækni og margt fleira. 

Ég held að sóknarfærin í íslensku atvinnulífi liggi meðal annars þar. Hjá hugbúnaðar-, þjónustu- og nýsköpunarfrumkvöðlum sem sjá breytingarnar og bregðast við þeim,” segir hún og kveðst litlar áhyggjur hafa af atvinnulífinu hvað þetta varðar.

Hildur Sverrisdóttir vill beita sér fyrir því að tryggja gott umhverfi fyrir hugmyndir sem koma úr atvinnulífinu, bæði í nýsköpun og í almennum rekstri.

„Það sannast aftur og aftur að krafturinn er nægur og hugmyndirnar. Íslensk framleiðsla til dæmis hefur sjaldan verið blómlegri eða fjölbreyttari. Við þurfum hins vegar að tryggja gott umhverfi fyrir hugmyndirnar, bæði nýsköpun og almennan rekstur."

Þess vegna horfi ég sérstaklega til þess að komandi kjarasamningar verði leystir farsællega og af ábyrgð allra sem að koma til að við missum ekki af að hafa hér sem blómlegast umhverfi í þágu allra sem hér búa," heldur Hildur áfram.

Fjárlögin kyndi undir verðbólgu og hagvaxtarhorfur dugi ekki fyrir skuldum

Þorgerður segir hins vegar að tækifæri atvinnulífsins felist fyrst og fremst í breyttri stjórnarstefnu.

„Ríkisstjórnin ákvað að beita ekki ríkisfjármálum til þess að stuðla að nýjum efnahagslegum stöðugleika og bættri samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Á sama tíma og þýska ríkisstjórnin flýtir því að setja í samband fyrri ríkisfjármálareglur sínar seinkar okkar ríkisstjórn slíkum ákvörðunum,” segir hún.

„Viðskiptaráð hefur réttilega vakið athygli á því að fjárlögin kynda undir verðbólgu. Samtök atvinnulífsins hafa líka lög að mæla þegar þau segja að hagvaxtarhorfur dugi ekki til að vinna á skuldunum og vandanum sé velt yfir á næstu ríkisstjórn.”
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sigmar Guðmundsson þingmenn Viðreisnar hafa bæði gagnrýnt fjárlög ríkisstjórnarinnar sem þau segja meðal annars kynda undir verðbólgu.Vísir/Vilhelm

Þorgerður segir hagtölur sýna versnandi samkeppnisstöðu útflutningsgreina. 

„Lausatök í ríkisfjármálum ýta undir verðbólgu og meiri vaxtahækkanir. Vaxtagjöld ríkisins eru einnig að aukast en þau eru orðin einn af stærstu útgjaldaliðum ríkisins. Óbreytt stjórnarstefna þýðir einfaldlega enn versnandi samkeppnisstöðu Íslands,” segir Þorgerður og hnýtir í ríkisstjórnina sem hún segir einnig hafna því að skoða tækifæri sem felist í alþjóðlegri samvinnu.

„Flestar aðrar þjóðir leggja hins vegar kapp á að finna nýjar leiðir í alþjóðasamskiptum til þess að styrkja stöðu sína og skapa ný tækifæri."

Það þarf að knýja á um breytta stjórnarstefnu. Það þarf að hverfa frá kyrrstöðunni. Annars gerist ekkert. Hvorki atvinnulífið né launafólkið getur beðið í fjögur ár eftir því,” segir Þorgerður.

Ríkið þurfi að hætta að soga til sín starfsfólk

Ásdís nefnir ferðaþjónustuna, sem dæmi um grein þar sem sóknarfærin séu alltumlykjandi. „Ef við gefum okkur að lífið færist á ný í sæmilega eðlilegt horf á nýju ári á ferðaþjónustan mikið inni. 

Fjárfesting í ferðaþjónustunni hafi verið mikil undanfarin ár og engin ástæða sé til að ætla annað en að ferðamenn muni streyma hingað til landsins á ný. „Nokkuð sem við höfum fengið smjörþefinn af þegar faraldurinn datt tímabundið niður á árinu," segir Ásdís og tekur fram að sóknarfærin liggi ekki aðeins hjá ferðaþjónustunni heldur víðar.

„Allt frá matvælaframleiðslu yfir til hugvitsins svo dæmi séu tekin. Nýsköpun hér á landi er að taka hressilega við sér og hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum skipt verulegu máli."

Öflug tæknifyrirtæki eru að rísa sem skapa bæði tekjur og verðmæt störf. Mikilvægt er að hlúa að þessum fyrirtækjum og tryggja gott rekstrarumhverfi. Það gerist þó ekki nema stjórnvöld haldi sig til hlés,” útskýrir Ásdís.

Mikil fjölgun á opinberum störfum samfara því sem störfum á einkamarkaði hefur fækkað, sé mikið áhyggjuefni. „Hið opinbera dregur í dag til sín ríflega helming af allri verðmætasköpun. Þessi staða er hvorki sjálfbær né æskileg og þarf að snúa þessari þróun við. Þar liggja sóknarfærin hjá hinu opinbera.”


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×