Innherji

Vilja að fallið verði frá frumvarpi sem setur kvaðir á erlenda fjárfestingu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir erlenda fjárfestingu skipta íslenskt efnahagslíf miklu máli til framtíðar. Þegar séu hindranirnar meiri hér en annars staðar. 
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir erlenda fjárfestingu skipta íslenskt efnahagslíf miklu máli til framtíðar. Þegar séu hindranirnar meiri hér en annars staðar.  Vísir/Vilhelm

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð gera öll alvarlegar athugasemdir við breytingar sem eru lagðar til á lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri í frumvarpi sem nú er í þinglegri meðferð. Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn samtakanna.

Framkvæmdastjóri SA segir í samtali við Innherja að hvers kyns lagabreytingar á sviði erlendrar fjárfestingar þurfi að vera vel ígrundaðar og gagnrýnir samráðsleysi við gerð frumvarpsins. Erlend fjárfesting sæti nú þegar víðtækari hindrunum hér á landi en almennt þekkist.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að heppilegast yrði ef fallið yrði frá frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, vísinda-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. 

SA, SI og VÍ vilja að ráðist verði í heildarskoðun á lagaumgjörð erlendrar fjárfestingar og rýni á fjárfestingu erlendra aðila í samfélagslega mikilvægum innviðum, sem stendur til að leggja fram. 

Í frumvarpinu eins og það stendur nú er lagt til að ráðherra geti bundið erlenda fjárfestingu ýmsum skilyrðum til þess að koma í veg fyrir að hún gangi gegn almannaöryggi. „Séu þau skilyrði brotin getur ráðherra farið fram á að hlutaðeigandi erlend fjárfesting skuli ganga til baka að viðlögðum dagsektum og þá getur hann lýst atkvæðisrétt fjárfestis í viðkomandi atvinnufyrirtæki óvirkan. Ráðherra er sömuleiðis heimilt að krefjast innlausnar á eignum og réttindum erlends fjárfestis í fyrirtæki í atvinnurekstri hér á landi.”

Frumvarpið er lagt fram eftir að Síminn skrifaði undir samkomulag um sölu á dótturfélagi sínu Mílu, til franska fjárfestingasjóðsins Ardian á dögunum. Íslenska ríkið og Míla hafa síðan komist að samkomulagi um þær kvaðir sem munu snúa að rekstri fyrirtækisins eftir að það kemst í eigu Ardian. Kvaðirnar eiga að tryggja að starfsemi þess samrýmist þjóðaröryggishagsmunum Íslands. Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu.

Keppikefli að stjórnvöld hvetji til erlendrar fjárfestingar

„Það er nauðsynlegt er að hvers kyns lagabreytingar á sviði erlendrar fjárfestingar séu vel ígrundaðar og byggi á samráði við íslenskt atvinnulíf enda skiptir erlend fjárfesting íslenskt efnahagslíf miklu máli til framtíðar,” segir Halldór Benjamín.

Hafa beri í huga að erlend fjárfesting geti styrkt efnahagslegar stoðir og verið atvinnuskapandi.

 „Bein erlend fjárfesting hefur síst aukist á undanförnum árum og hefur Ísland að mörgu leyti verið eftirbátur annarra ríkja með tilliti til erlendrar fjárfestingar, meðal annars í upplýsingatækni-, fjarskipta- og gagnaversiðnaði. Erlend fjárfesting sætir víðtækari hindrunum en almennt þekkist.”

Slíkt skuli ávallt hafa í huga þegar boðaðar eru breytingar á löggjöf er varða erlendar fjárfestingar. 

„Of opnar heimildir til takmörkunar á erlendri fjárfestingu geta, jafnvel einar og sér, fælt fjárfestingu frá landinu. Það er því mikilvægt að vanda til verka,” útskýrir Halldór Benjamín.

Hann bendir á að nú þegar séu fyrir hendi heimildir til handa ráðherra að rýna og stöðva erlenda fjárfestingu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

„Það er alveg eðlilegt að endurskoða þær heimildir, skýra og afmarka betur en líkt og varðandi aðra hluta frumvarpsins er mikilvægt að málið sé unnið með faglegum hætti.”

Óboðlegur asi á málinu

SA segja jafnframt að þær breytingar sem frumvarpið boðar séu ótímabærar í ljósi þess að fyrirhugaður sé endurflutningur frumvarps til nýrra fjarskiptalaga strax í janúar. 

„Þá skiptir máli að samráð sé haft við fjarskipta-, upplýsingatækni- og gagnaversiðnað í tengslum við slíkar breytingar. Svo er mikilvægt að hagsmunaaðilar fái tækifæri til að kynna sér framlögð þingmál til hlítar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri,” segir Halldór Benjamín og gagnrýnar asann á vinnu við þetta tiltekna frumvarp sem hann segir óboðlegan.

„Sér í lagi þegar til stendur að setja íþyngjandi lagaákvæði líkt og nú er raunin.”


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×