Handbolti

„Hún hefur valið rétta foreldra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Henry Reistad skorar eitt 38 marka sinna á HM á Spáni.
Henry Reistad skorar eitt 38 marka sinna á HM á Spáni. ap/Joan Monfort

Ein af stjörnum norska kvennalandsliðsins á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í handbolta var hin 22 ára Henny Reistad. Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs, segir hana einstakan leikmann.

Reistad var skoraði sex mörk í úrslitaleiknum þar sem Norðmenn unnu Frakka, 29-22. Hún var valin í úrvalslið HM og var næstmarkahæst í norska liðinu á eftir Noru Mørk með 38 mörk.

„Þetta er einstök hæfileikamanneskja. Hún er 22 ára svo hún er kannski ekki „talent“ lengur. Hún er góður leikmaður og hefur alla burði. Hún hefur valið rétta foreldra,“ sagði Þórir í léttum dúr í samtali við Vísi í gær.

„Hún er með meðfæddan hraða og sprengikraft og er klókur leikmaður. Hún er enn ung og það eru sveiflur í leik hennar og voru á þessu móti. En í seinni hálfleiknum í úrslitaleiknum sjá menn hvaða hæfileikum hún býr yfir. Hún er ein sú efnilegasta sem fram hefur komið í handboltanum á síðustu árum.“

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Reistad unnið til verðlauna bæði með landsliði og félagsliði. Hún var til að mynda valin best á úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í vor þar sem lið hennar, Vipers Kristiansand, stóð uppi sem sigurvegari. Þórir segir samt að fara verði varlega með svona leikmenn.

„Hún er með geysilega hæfileika og það verður gaman að fylgjast með henni. En það þarf að flýta sér hægt með svona leikmenn og passa upp á þeir verði ekki étnir upp af öllum sem vilja bita,“ sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×