Innherji

Jakob á Jómfrúnni: Kostnaður við laun sligandi fyrir veitingageirann

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Jakob Einar Jakobsson er eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar.
Jakob Einar Jakobsson er eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar.

Hár launakostnaður er ein helsta áskorun veitingastaða hér á landi að sögn Jakobs E. Jakobssonar, eiganda og framkvæmdastjóra Jómfrúarinnar. Eðli málsins samkvæmt er meginþorri veitingastaða opinn á kvöldin og um helgar og launakostnaður í geiranum er eftir því. Jakob segir álagsgreiðslur utan dagvinnu of íþyngjandi.

Um þetta er meðal annars fjallað í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Þar ræðir Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður þáttarins, við Jakob. Jómfrúin fagnar 25 ára afmæli í ár og í þættinum er fjallað um sögu staðarins og nýútkomna bók Jakobs sem gefin er út af því tilefni.

Í þættinum er einnig rætt um þann launakostnað sem veitingastaðir þurfa að bera og áhrif hans á samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu á alþjóðavísu.

„Allur vinnumarkaðurinn virðist ganga út frá því að það sé svo slæmt að vinna utan dagvinnutíma. Það aftur á móti hentar mörgum vel, sérstaklega á ákveðnu æviskeiði að vera í hlutastarfi eða vinna á kvöldin þega það er í námi á daginn, vinna um helgar og svo framvegis,“ segir Jakob.

Stéttarfélögin horfi of oft í baksýnisspegilinn

„Að mínu viti hefur verið gengið oft langt í því að umbuna fólki fyrir að vinna utan dagvinnu. Veitingastaðir eru oft fyrsti snertiflötur ungs fólks við atvinnulífið og ég hef stundum sagt það fullum fetum að við erum stundum að kenna fólki að vinna.“

Jakob tekur dæmi af tæplega tvítugum einstakling sem fær um 440 þúsund krónur í laun á mánuði fyrir að vinna á veitingastað og bendir á að kostnaður fyrirtækja af slíkum launum sé hátt í 600 þúsund krónur með launatengdum gjöldum. Hann bendir einnig á að gjöld eins og tryggingagjald sé mun hærra fyrir ungt fólk á veitingastöðum en það sem vinnur í hefðbundinni dagvinnu þar sem gjaldið leggst hlutfallslega ofan á laun.

„Mér finnst stéttarfélögin oft vera að horfa í baksýnisspegilinn í þessum málum,“ segir Jakob. „Ísland á heldur ekki að vera heimsmethafi í bilinu milli útborgaðra launa starfsfólks og heildarlaunakostnaðar fyrirtækja, en þannig er það nú samt. Þetta verður að laga."

Þetta muni til lengri tíma skerða samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu. „Hvort sem er á hótelum, hjá flugfélögum, veitingastöðum, í afþreyingarfyrirtækjum og svo framvegis.“

Gísli Freyr veltir því upp í samtalinu hvort að ein afleiðing þess að greiða svo há laun utan dagvinnu geti orðið sú að ungt fólk fái ekki vinnu á veitingastöðum og missi þannig af því tækifæri að læra að starfa á vinnumarkaði. Jakob tekur undir það.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Jakob á nýrri hlaðvarpsveitu Sýnar sem ber nafnið Tal. Auk þess er hlaðvarpið aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum og öllum aðgengilegt án endurgjalds.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Þjóðmál í samstarf við Innherja

Hlaðvarpsþátturinn Þjóðmál, í umsjá Gísla Freys Valdórssonar, og Innherji hefja samstarf á allra næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×