Viðskipti innlent

Ás­dís Eir og Óli Páll til Lucinity

Atli Ísleifsson skrifar
Ásdís Eir Símonardóttir og Óli Páll Geirsson.
Ásdís Eir Símonardóttir og Óli Páll Geirsson. Aðsend

Ásdís Eir Símonardóttir og Óli Páll Geirsson hafa verið ráðin til upplýsinga- og fjártæknifyrirtækisins Lucinity

 Í tilkynningu segir að Ásdís Eir hafi verið ráðin sem „VP of People and Culture“ og Óli Páll sem „VP of Data Science“.

Um félagið segir að Lucinity nýti gervigreind í hugbúnaði til að auðvelda bönkum og fjártæknifyrirtækjum að koma auga á hegðun og færslur sem tengjast peningaþvætti og fjármálaglæpum.

„Ásdís Eir leiðir uppbyggingu á hvetjandi starfsumhverfi og menningu þar sem áhersla er lögð á umhyggju, nýsköpun og tækifæri til vaxtar í alþjóðlegu umhverfi.

Óli Páll er doktor í tölfræði og leiðir gagnavísindateymi Lucinity. Teymið hefur það hlutverk að þróa gervigreindarlíkön og aðferðir sem auðvelda fjármálafyrirtækjum til að taka gagnadrifnar og áhrifaríkar ákvarðanir í baráttunni gegn peningaþvætti.

Ásdís starfaði áður hjá samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Hjá OR var hún mannauðsleiðtogi Orku náttúrunnar, Carbfix og sviða Orkuveitunnar. Hún var bakhjarl stjórnenda við framkvæmd starfsmannastefnu og leiddi fjölbreytt verkefni sem stuðla að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað. Ásdís átti stóran þátt í að OR fékk Menntaverðlaun atvinnulífsins 2020. Hún er vinnusálfræðingur að mennt, með MS-gráðu í félags- og vinnusálfræði frá Háskóla Íslands og BS-gráðu í sálfræði frá sama skóla. Ásdís er formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi. Hlutverk félagsins er að efla fagmennsku í mannauðsstjórnun í þágu atvinnulífsins

Óli Páll starfaði áður sem gagnastjóri Reykjavíkurborgar á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þar byggði hann upp og leiddi skrifstofu gagnaþjónustu en hún styður við gagnadrifna ákvörðunartöku innan borgarinnar og skapar virði úr gögnum hennar. Hann sat einnig í framkvæmdastjórn sviðsins og í aðgerðastjórn stafrænna umbreytinga hjá borginni. Þar áður var Óli Páll sérfræðingur í gagnavísindum hjá Landsbankanum. Hann er með doktorsgráðu í tölfræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í stærðfræði frá sama skóla. Samhliða störfum sínum starfar Óli Páll sem aðjúnkt í tölfræði við Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.