Viðskipti innlent

Hagnaður af sölu óvirku innviðanna 6,5 milljarðar króna

Atli Ísleifsson skrifar
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar. Vísir/Vilhelm

Uppgjör Sýnar hf og bandaríska framtaksfjárfestingafélagsins DigitalBridge Group Inc., áður Colony Capital Inc., í tengslum við sölu á óvirkum farsímainnviðum félagsins fór fram í dag.

Í tilkynningu til Kauphallar kemur fram að endanlegt kaupverð, sem sjóðir tengdir DigitalBridge Group hafi nú innt af hendi, nemi 6,94 milljörðum króna og ná viðskiptin til tæplega tvö hundruð sendastaða.

„Fjárhæðin er lítið eitt lægri en áður hafði verið kynnt einkum þar sem sendastöðum fækkaði lítillega. Söluhagnaður verður því tæplega 6,5 ma.kr.

Reikningshaldsleg meðferð söluhagnaðar liggur ekki endanlega fyrir, þ.e. hversu stór hluti af söluhagnaðinum verður færður í gegnum rekstur á söludegi.

Samhliða viðskiptunum var gerður langtímasamningur, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang félagsins að hinum óvirku farsímainnviðum. Allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar hf.“

Lækkun lána, endurkaupa á hlutabréfum og nýfjárfestingar

Greint var frá því í síðasta mánuði að Samkeppniseftirlitið hefði lagt blessun sína yfir sölu fjarskiptafyrirtækjanna Sýnar og Nova á óvirkum farsímainnviðum til DigitalBridge Group Inc. Um var að ræða sölu á fasteignum, möstrum og öðrum búnaði sem ekki telst til virks búnaðar.

Í ársfjórðungsuppgjöri fyrir annan ársfjórðung hjá Sýn kom fram að söluverðið yrði ráðstafað til lækkunar á lánum, endurkaupa á hlutabréfum og í nýfjárfestingar.

Vísir er í eigu Sýnar.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×