Innherji

Stjórnarandstaðan bindur miklar vonir við Björn Zoega

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Bergþór Ólason Miðflokki, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn og Tómas Andrés Tómasson Flokki fólksins. Öll yrðu þau ánægð með breytingar á stefnu síðustu ríkisstjórnar í heilbrigðismálunum.
Bergþór Ólason Miðflokki, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn og Tómas Andrés Tómasson Flokki fólksins. Öll yrðu þau ánægð með breytingar á stefnu síðustu ríkisstjórnar í heilbrigðismálunum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru ánægðir með ráðningu Björns Zoega í heilbrigðisráðuneytið og telja ráðninguna merki þess að til standi að breyta um stefnu í heilbrigðismálunum. Tómas Andrés Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, hefði reyndar frekar viljað sjá Birgi í Play til ráðgjafar í heilbrigðismálunum. „Sá kann að stýra fyrirtæki," segir Tómas.

Viðmælendur Innherja innan Sjálfstæðisflokksins binda ekki síður en stjórnarandstaðan vonir við að ráðningin sé til marks um að nýir tímar séu framundan í heilbrigðisráðuneytinu og vilji ráðherra standi til að breyta til. Ráðuneytið færðist frá Vinstri grænum til Framsóknarflokksins við stjórnarmyndun á dögunum. Stjórnarsáttmáli tiltekur nokkrar breytingar á málaflokknum, meðal annars að til standi að setja stjórn yfir spítalann.

„Þetta eru frábærar fréttir. Fyrstu merki þess að einhver ráðherra stjórnarinnar ætli ekki að láta kerfið alfarið um stjórnina,” segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins um ráðningu Björns, sem er forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð og fyrrverandi forstjóri Landspítalans. Hann var fenginn í tímabundið hlutastarf ráðgjafa í heilbrigðisráðuneytinu meðfram störfum sínum sem forstjóri. Tilkynnt var um ráðninguna í gær og Björn hefur þegar hafið störf.

Björn geti losað heilbrigðiskerfið undan oki harðrar vinstri stefnu

„Björn mun án nokkurs vafa koma með þekkingu og reynslu að borðinu sem mun losa heilbrigðiskerfið undan oki þeirrar hörðu vinstri stefnu sem hefur verið viðhöfð undanfarin fjögur ár. Það tryggir okkur skilvirkara heilbrigðiskerfi,” segir Bergþór enn fremur.

Björn var gestur á fundi Samtaka atvinnulífsins um heilbrigðiskerfið sem haldinn var í ágúst síðastliðnum. Þar kom meðal annars fram í máli hans að full­reynt væri að fjár­magna sjúkra­hús­rekst­ur með föst­um fjár­fram­lög­um. Tengja yrði fjár­magn við af­köst og gæði þjón­ustu. Þannig skap­ist hvati fyr­ir nýja nálg­un, hagræðingu og ein­föld­un rekstr­ar í þágu sjúk­linga og starfs­fólks. 

„Við þurfum bæði á einkarekstri og opinberum rekstri að halda. Ég held að þetta styðji hvort við annað. En þá verður auðvitað að gera kröfur á einkareksturinn," kom meðal annars fram í máli Björns á fundinum.

Ráðningin vonandi til þess að rétta kúrsinn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar tekur í sama streng og Bergþór. „Mér líst mjög vel á Björn. Þetta verður vonandi til að rétta kúrsinn af í heilbrigðismálunum,” segir hún, en Viðreisn deildu heilmikið á heilbrigðismálin á síðasta kjörtímabili þegar Svandís Svavarsdóttir hélt um stjórnartaumana í heilbrigðisráðuneytinu. Þingmönnum Viðreisnar fannst pólítík Svandísar helst of langt til vinstri og vildu greiða götu einkareksturs, samhliða opinberum rekstri. Ekki síst í þeim tilgangi að vinna á biðlistum.

Almennt var heilmikið deilt á þingi um rekstrarform heilbrigðisþjónustu á síðasta kjörtímabili og innan stjórnarinnar voru einnig deildar meiningar um fyrirkomulag heilbrigðismálanna undir stjórn Svandísar. Við ráðningu Björns í gær, lét Willum Þór Þórsson nýr heilbrigðisráðherra hafa eftir sér að gott samspil spítalans við aðra þætti heilbrigðiskerfisins væri lykilatriði og boðaði breytingar. 

„Umtalsverðar breytingar á rekstri og yfirstjórn Landspítalans munu eiga sér stað á næstunni og því er gríðarlega mikilvægt að sérfróðir aðilar með þekkingu á rekstri slíkrar stofnunar séu til að veita ráð við slíka vinnu.“

Vonast til að breytingar fylgi Birni en Tómas vill frekar Bigga í Play

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er meðal annars tiltekið að skipa eigi stjórn yfir Landspítalann. Þá stendur til að ný tækni og staf­rænar lausnir verði „nýttar í auknum mæli í vel­ferð­ar- og heil­brigð­is­þjón­ustu og þannig stuðlað að bættri þjón­ustu, gæðum og auk­inni hag­kvæmni í rekstri. Í sáttmálanum kemur einnig fram að Sjúkra­trygg­ingar Íslands verði „efldar sem kaup­andi og kostn­að­ar­grein­andi heil­brigð­is­þjón­ustu fyrir hönd rík­is­ins.“

Tómasi Andrési Tómassyni, nýkjörnum þingmanni Flokks fólksins líst vel á ráðninguna líkt og félögum hans í stjórnarandstöðunni. „Ég held að Björn sé bara flottur. En ég hefði gjarnan viljað sjá Birgi Jónsson forstjóra Play í þessu starfi. Sá kann að reka fyrirtæki!” segir Tómas, léttur í bragði.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×