Umfjöllun og viðtöl: KA-HK 33-30 |  KA á sigurbraut

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
visir-img
  vísir/hulda margrét

KA vann mikilvægan sigur á HK í Olís deild karla í kvöld, lokatölur 33-30 eftir spennuleik þar sem bæði lið áttu sína kafla. KA er því komið með tvo sigra úr síðustu tveimur leikjum og fara upp í 8 stig í deildinni.

Leikmenn HK mætu mjög vel stemmdir til leiks og keyrðu upp hraðann í leiknum sem gerði það að verkum að fyrri hálfleikur var mjög hraður, mikið var skorað af mörkum eða í heildina 37 mörk.

Heimamenn áttu í mestu vandræðum með að stoppa hraða miðju sem gestirnir tóku ítrekað og úr varð markaveisla. Gestirnir gerðu vel með að keyra upp hraðann en markvarsla og vörn fylgdu ekki og því gat KA haldið í við HK.

Í byrjun leiks skiptust liðin á að skora og jafnt var á nánast öllu tölum þar til á sjöundu mínútu þegar HK tók tveggja marka forystu, 6-8 sem þeir héldu ansi lengi. Þeir komust mst þremur mörkum yfir eða 12 - 15. Þá tóku KA menn við sér og skoruðu næstu þrjú mörk og jöfnuðu metin.

Lokamínútur fyrri hálfleiks voru ótrúlegar en sjö mörk voru skoruðu á síðustu fjórum mínútum leiksins. KA leiddi í hálfleik 19 - 18 eftir að Arnar Freyr Ársælsson kom heimamönnum yfir rétt áður en flautað var til hálfleiks.

Það var annað upp á teningnum í síðari hálfleik en sá hálfleikur var ekki eins hraður og sá fyrri þar heimamenn náðu að loka betur á hröðu sóknir gestanna. Þetta mark sem skildi liðin að í hálfleik gaf KA ekki eftir í seinni hálfleik og leiddi alltaf leikinn með einum til tveimur mörkum. HK gafst aldrei upp en voru klaufar oft á tíðum þegar þeir gátu jafnað eða komist yfir.

Hafsteinn Óli Berg leikmaður HK fékk að líta rauða spjaldið á 40. mínútu sem virtist slá leikmenn HK aðeins út af laginu. KA náði betra taki á leiknum og þegar 10 mínútur voru eftir munaði fjórum mörkum á liðunum, 27 – 23.

HK reyndu hvað þeir gátu að minnka bilið en að endingu vann KA þriggja marka sigur, 33 – 30 og er þetta þeirra annar sigur í röð.

Afhverju vann KA?

KA náði góðum kafla í lok fyrri hálfleiks sem reyndist mikilvægt í upphafi þess síðari. Þá náðu heimamenn betri tökum á hröðu sóknum HK og gátu lokað betur á gestina í síðari en heimamenn fengu töluvert færri mörk á sig í þeim síðari. Þá reyndist Nicholas Satchwell markvörður KA þeim vel en hann varði 20 skot sem gerir um 41,7% markvörslu, ein af þeim kom af lokamínútunum þegar hann varði víti frá Einari Pétur Péturssyni og silgdi þessu í hús fyrir KA

Hverjar stóðu upp úr?

Eins og áður sagði þá var Nicholas Satchwell frábær í marki KA. Einar Rafn var mjög góður en hann skoraði sjö mörk og skapaði að auki níu færi. Ólafur Gústafsson hélt uppteknum hætti en hann hefur verið öflugur fyrir KA í undanförnum leikjum, góður varnarlega og skoraði að auki sjö mörk.

Hjörtur Ingi gerði vel í liði HK en hann skoraði fjögur mörk og skapaði 11 færi fyrir liðsfélagana. Kristján Ottó Hjálmarsson var markahæstur með fimm mörk. 

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik gekk varnarleikurinn frekar brösulega hjá báðum liðum. Það lagaðist hjá KA í seinni hálfleik en gestirnir náðu ekki að loka eins vel og því fór sem fór. 

Hvað gerist næst?

KA heimsækir nýliða Víkings í næstu umferð. Gestirnir fá stórt verkefni en þeir fara á Hlíðarenda og spila við Val. Þetta verða síðustu leikirnir fyrir jólafrí. 

Jónatan Magnússon: Heildarbraggurinn á okkar leik fínn

Jónatan Magnússon léttur í bragði fyrir utan KA-heimilið.MYND/STÖÐ 2

„Ég er ánægður með að vinna leikinn. Það var markmið númer eitt, tvö og þrjú að ná í þessi tvö stig sem voru í boði. Gott að tengja saman við síðasta leik, þrátt fyrir að frammistaðan í dag hafi verið kaflaskipt,“ sagði Jónatan Magnússon eftir annan sigur KA í röð. 

„Varnarlega komum við mjög illa inn í leikinn, við náum engum takti þar og erum að skipta á milli varnarkerfa. Við vorum slitnir og opnir, svo fórum við niður í 6-0 og þá kom kafli þar sem við náðum að þéttast og svo einhvern veginn slitnum við aftur og þannig var það líka í síðari hálfleik. Sóknarlega var ég nokkuð ánægður. HK spilar á háu tempói og við vissum það að við ætluðum að koma okkur vel til baka. Mér fannst það ekki ganga neitt sérstaklega vel til að byrja með en heildarbraggurinn á okkar leik var fínn í dag.“

KA náði lítið að loka á HK í fyrri hálfleik en það gekk betur í þeim síðari.

„Ég held það sé aðallega hvernig menn fóru að skila sér til baka, mér fannst við vera mjög óskipulagðir í þeim aðgerðum í fyrri hálfleik en það lagaðist í seinni hálfleikur. Þessi leikur snérist um að vinna, HK eru baráttuglaðir og við vissum það. Ég var ánægður með Nicholas í lokinn þegar hann sigldi þessu heim fyrir okkur.“

Ólafur Gústafsson hefur verið flottur fyrir KA í undanförnum leikjum og það varð ekki breyting á því í dag. 

„Það munar rosalega um að hafa hann inn á, það skiptir okkur miklu máli að hann sé heill. Hann er búinn að vera í fínu standi síðustu vikur, hann kom inn í mótið meiddur en með hverri mínútu og leik sem hann spilar að þá verðum við betri, það er alveg 100%. Það vita það allir og það er ekkert leyndarmál hversu mikilvægur hann er okkur. Ég er ótrúlega ánægður með hann, hann er búinn að vera stíga upp og taka ábyrgð. Það er það sem við viljum frá honum, hann er náttúrulega með gríðarlega reynslu og hvergi betra að miðla reynslunni en inn á vellinum. Þannig ég er ánægður með hann og með alla mína leikmenn. Við spiluðum á mörgum mönnum og það hafði kannski eitthvað að segja í þessu háa tempói sem var í leiknum.“

Jónatan var ánægður að ná að tengja sigurleiki. 

„Við þurftum sigurtilfinninguna og þegar maður vinnur leiki þá er auðveldara að trúa á það sem við erum að vinna eftir. Það býr mikið í þessu liði. Það hefur tekið alltof langan tíma að finna okkar takt. Ég er sannfærðum um það og hef mikla trú á mínum mönnum að við verðum betri. Það verður fljótt skotið niður ef við náum ekki upp góðri frammistöðu næsta föstudag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira