Viðskipti innlent

Atvinnuleysi stendur í stað

Eiður Þór Árnason skrifar
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni lítið breytast í desember.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni lítið breytast í desember. Vísir/Vilhelm

Skráð atvinnuleysi mældist 4,9% í nóvember og var óbreytt frá því í október. Alls fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 78 frá októbermánuði.

Atvinnulausir voru alls 10.155 í lok nóvember, 5.719 karlar og 4.436 konur. Atvinnulausum körlum fjölgaði um 134 frá októberlokum en atvinnulausum konum fækkaði um 62.

Vinnumálastofnun hafði áður spáð því að atvinnuleysi myndi lítið breytast eða aukast lítillega í nóvember vegna árstíðasveiflu en yfirleitt eykst atvinnuleysi milli þessara mánaða.

Þannig nam meðalaukning atvinnuleysis um 5,0% milli október og nóvember árin 2009 til 2021. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar. 

Vinnumálastofnun

Aukin eftirspurn í mörgum atvinnugreinum er meðal annars sögð skýra þessa breytingu milli ára. Þannig er fjölgun atvinnulausra í byggingargreinum minni í nóvember en áður auk þess sem fækkun atvinnulausra í verslun er í stað fjölgunar almennt í nóvember. Einnig eru breytingar á fjölda atvinnulausra í ferðaþjónustugreinum nú í nóvember yfirleitt til fækkunar í stað fjölgunar almennt í mánuðinum.

Atvinnuleysi er áfram mest á Suðurnesjum eða 9,5%. Þar fjölgaði atvinnulausum um 34 í nóvember. Alls höfðu 4.083 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði á landinu öllu í lok nóvember og fækkaði um 169 frá október. Hins vegar voru þeir 3.919 í nóvemberlok 2020.

Þeim sem hafa verið atvinnulausir í 6 til 12 mánuði fækkaði talsvert frá október eða um 246 og voru 1.807 í lok nóvember en 2.053 í lok október. Í nóvember 2020 var þessi fjöldi 5.961

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni lítið breytast í desember og verða á bilinu 4,9% til 5,1%. 


Tengdar fréttir

Ein hópuppsögn í nóvember

Vinnumálastofnun barst ein tilkynning um hópuppsögn í nóvember þar sem fjórtán starfsmönnum var sagt upp störfum í sérfræði- tækni- og vísindalegri starfsemi. Uppsagnirnar taka flestar gildi á tímabilinu janúar til apríl 2022.

At­vinnu­leysi heldur á­fram að dragast saman

Skráð atvinnuleysi var 4,9% í október og lækkaði úr 5,0% í september. Alls fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 428 sem nemur um 4,4% fækkun atvinnulausra frá septembermánuði. Atvinnuleysi mældist 5,0% í febrúar 2020 og er svipað nú og fyrir faraldurinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×