Viðskipti innlent

At­vinnu­leysi nú svipað og fyrir far­aldurinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Atvinnuleysi hefur minnkað hratt síðustu mánuði.
Atvinnuleysi hefur minnkað hratt síðustu mánuði. Vísir/Vilhelm

Skráð atvinnuleysi mældist 5,0% í september og lækkaði úr 5,5% í ágúst. Atvinnuleysi mælist nú jafn mikið og í febrúar 2020 og er svipað og fyrir faraldurinn.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar en atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 1.167 milli mánaða sem nemur rúmlega 10% fækkun. Stofnunin spáir því að atvinnuleysi verði svipað í október og muni ekki halda áfram að lækka.

Almennt skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það mældist 11,6% og hefur dregist saman um 6,6 prósentustig síðan þá.

Atvinnuleysi er áfram mest á Suðurnesjum eða 9,1% og minnkaði úr 9,7% í ágúst. Næst mest var atvinnuleysið 5,4% á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 6,1%.

Vinnumálastofnun

Atvinnulausir voru alls 10.428 í lok september, 5.726 karlar og 4.702 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 432 frá ágústlokum og atvinnulausum konum fækkaði um 639.

Af þeim 1.071 atvinnulausu sem fækkaði á atvinnuleysisskrá í september fóru ca. 450 á ráðningarstyrk, hins vegar bættust um 1.600 nýir atvinnuleitendur við í september.

Aukið atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara sem starfa við farþegaflutninga

4.598 atvinnuleitendur höfðu verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok september og fækkaði um 485 frá ágúst. Hins vegar voru þeir 3.274 í septemberlok 2020.

Alls voru 4.144 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok september og fækkaði um 348 frá ágúst eða að meðaltali um 8% frá ágúst. Þessi fjöldi samsvarar um 11,8% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var um 40% í september.

Fram kemur í skýrslu Vinnumálastofnunar að atvinnulausum hafi fækkað í öllum atvinnugreinum í september frá mánuðinum á undan. Fækkaði mest í ferðatengdri starfsemi eða á bilinu 12% til 14% og í menningartengdri starfsemi um 15% milli mánaða. Í flestum öðrum atvinnugreinum var fækkun atvinnulausra á bilinu 4% til 8%.

Alls voru 4.144 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok september og fækkaði þeim um 348 frá ágúst eða að meðaltali um 8% frá ágúst.

Mesta hlutfallslega fækkun meðal atvinnulausra erlendra ríkisborgara frá ágúst var í veitinga- og gistiþjónustu, og svo í menningartengdri starfsemi. Hins vegar fjölgaði atvinnulausum í farþegaflutningum eða um 13% frá ágúst.


Tengdar fréttir

At­vinnu­leysi heldur á­fram að dragast saman

Skráð atvinnuleysi var 5,5% í ágúst en mældist 6,1% í júlí. Alls fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 1.010 sem nemur rúmlega 8% fækkun atvinnulausra frá júlímánuði.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.