Innherji

Gildi leggur meiri áherslu á innlend hlutabréf á næsta ári

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
DJI_0173
VÍSIR/VILHELM

Gildi lífeyrissjóður mun auka vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni samtryggingardeildar sjóðsins um tvö prósent á næsta ári og minnka vægi skuldabréfa til samræmis. Þetta kom fram á sjóðfélaga- og fulltrúaráðsfundi sjóðsins sem var haldinn í lok nóvember.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, fór á fundinum yfir fjárfestingastefnu samtryggingardeildar, sem er um 856 milljarðar króna að stærð, fyrir árið 2022.

Vægi innlendra hlutabréfa í fjárfestingastefnunni fyrir þetta ár var 19 prósent en það hækkar í 21 prósent í stefnunni fyrir næsta ár. Vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni nam 24 prósentum í byrjun nóvember og var því töluvert yfir markmiði.

Á móti minnkar Gildi, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, vægi fyrirtækjaskuldabréfa, veðskuldabréfa og erlendra skuldabréfa um eitt prósent í hverjum flokki fyrir sig. Lífeyrissjóðurinn eykur hins vegar vægi skuldabréfa með ábyrgð ríkisins um eitt prósent. Vægi þeirra eykst úr 17,5 prósentum í 18,5 prósent.

Á skuldabréfahliðinni má greina áherslubreytingar hjá Gildi frá því fyrir ári síðan. Á sjóðfélagafundi Gildis í nóvember 2020 kom fram að aukin áhersla yrði lögð á veðskuldabréf, og skuldabréf fyrirtækja og banka. Á móti yrði dregið úr vægi skuldabréfa með ríkisábyrgð.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, sem var lagt fram í vikunni, kom fram að hrein fjármögnunarþörf ríkissjóðs á næsta ári næmi um 117 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að stærstum hluta fjárþarfar ríkissjóðs verði mætt með útgáfu ríkisskuldabréfa á innanlandsmarkaði.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis.

Á fundinum núna í nóvember kom einnig fram að uppgreiðslur sjóðsfélagalána, sem náðu hápunkti í október 2020, hefði farið minnkandi á þessu ári og jafnframt hefði verið aukning í nýjum útlánum. Ný sjóðfélagalán námu 15,4 milljörðum á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við 14,5 milljarða króna á öllu árinu í fyrra. Mest lánaði Gildi árið 2018 en þá námu ný útlán samtals 22 milljörðum króna.

Gildi er á meðal þeirra þrettán lífeyrissjóða sem ætla að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Hlutur Gildis í þessum áformum nemur um 95 milljörðum króna sú fjárhæð samsvarar um 8 prósentum af áætlaðri stærð lífeyrissjóðsins.

Í umfjöllun Innherja um þessi mál sagði Davíð Rúdólfsson að sjóðsstjórar þyrftu ávallt að hafa umboðsskyldu sína gagnvart eigendum fjármunanna í huga. Áherslan þyrfti að vera fyrst og síðast á ávöxtun eigna og stýringu á áhættu.

„Það er mikilvægt að halda því til haga að með aðkomu að þessu verkefni CIC erum við hjá Gildi ekki á nokkurn hátt að gefa einhvern afslátt á ávöxtun fjármuna sjóðsins. Þvert á móti þá horfum við til þess að þessar áherslur séu vel til þess fallnar að stuðla að aukinni ávöxtun sjóðfélaga á komandi árum,“ sagði Davíð.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Fjárlögin til marks um betri stöðu en víðast hvar í heiminum

Nýtt fjármálafrumvarp varpar ljósi á það hversu vel Ísland stendur í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að efnahagsmálum. Greinendur sem Innherji ræddi við benda á að ríkissjóður hafi rúmt svigrúm til að fjármagna sig með öðrum leiðum en í gegnum peningaprentun Seðlabankans og að önnur ríki hafi þurft að grípa til stórfelldari aðgerða í ríkisfjármálum og peningamálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.