Viðskipti innlent

Macland í Kringluna eftir ellefu ár í miðbænum

Snorri Másson skrifar
Macland hefur verið í ellefu ár við Laugarveginn.
Macland hefur verið í ellefu ár við Laugarveginn. Macland

Það er umrót á Laugavegi þessa dagana, alltaf slæðingur af fólki á kvöldin hvort sem eru Reykvíkingar í jólainnkaupum eða ferðamenn að gá að einhverju forvitnilegu. En leita þarf annað en hingað til að kaupa sér iPhone.

Tölvu- og símabúðin Macland, sem hefur staðið í bláu húsi við horn Klapparstígs í ellefu ár, er á förum. Koma á þremur útibúum verslunarinnar undir eitt þak í Kringlunni og eigandinn, Hörður Ágústsson, kveðst munu sakna Laugavegarins.

„Ég náttúrulega elska miðbæinn, ég elska að koma þarna og ég elska að reka verslun þarna, en húsnæðið sem við vorum í var orðið illa farið og var ekki nothæft lengur og við urðum að flytja búðina,“ segir Hörður í samtali við fréttastofu.

Hörður segir Laugaveginn vera á lokametrunum í jákvæðri umbreytingu sem orðið hafi undanfarinn áratug.

„Það er kannski framtíð Laugavegarins, að þróast í svona lista-, hönnunar- og barstreet/veitingahúsagötu. Það væri bara ofboðslega fallegt og ég held að það sé svolítið bara staðan,“ segir Hörður.

Engin atlaga að geitinni enn

Talandi um hönnun, ef kíkt er í næsta hús við Macland á Laugavegi hafa birst þar fyrirmyndarstofur og svefnherbergi frá IKEA. Þetta er samt ekki ný verslun, segir framkvæmdastjórinn, Stefán Rúnar Dagsson.

„Við erum bara að reyna að ná til fólks og fá það til okkar. Við reyndar auglýsum líka netsöluna þarna. En við ákváðum að prófa þetta. IKEA úti hefur verið að gera þetta á járnbrautarstöðvum. En við erum ekki með járnbrautarkerfi á Íslandi, þannig að við gátum ekki nýtt okkur þá leiðina,“ segir Stefán í samtali við fréttastofu.

Hættulegt að vera geit.Vísir/Vilhelm

Það er ekki hægt að tala við framkvæmdastjóra IKEA án þess að spyrja hvernig geitinni líður: „Geitin stendur á sínum stað og líður vel. Kalt hjá henni núna,“ segir Stefán. Hefur engin atlaga verið gerð? „Ekki enn þá.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×