Viðskipti innlent

Stjórnvöld fjármagna þróun nýrrar streymisveitu

Eiður Þór Árnason skrifar
Málaflokkurinn heyrir undir Lilju Alfreðsdóttur, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Málaflokkurinn heyrir undir Lilju Alfreðsdóttur, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra. Vísir/vilhelm

Ríkisstjórnin hyggst veita fé til þróunar nýrrar innlendrar streymisveitu á næsta ári sem er ætlað að auðvelda og einfalda aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi.

Undirbúningsvinna er hafin á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasafns Íslands en gert er ráð fyrir að streymisveitan veiti aðgang að íslenskum bíómyndum, þáttaröðum, heimildarmyndum, stuttmyndum og öðru efni.

Fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 sem kynnt var í gær að fjárveiting vegna framkvæmdar kvikmyndastefnu verði aukin um 510 milljónir á næsta ári. Fjármunirnir verði nýttir til þróunar streymisveitu og í ótilgreind aukin verkefni hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

412 milljónum króna verður varið til að efla Kvikmyndasjóð í samræmi við nýja kvikmyndastefnu. Verkefnin eru hluti af tímabundnu fjárfestingar- og uppbyggingarátaki stjórnvalda til að bregðast við efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. 

Málefni kvikmynda færast undir nýtt viðskipta- og menningarráðuneyti sem var áður mennta- og menningarmálaráðuneytið.Vísir/Vilhelm

Mbl.is greindi fyrst frá viðbótarfjárveitingunni en Kvikmyndamiðstöð fjallaði um áformin á vef sínum í maí.

„Að baki liggur sú grundvallarhugmynd að auðvelda og einfalda aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi á tímum stafrænnar dreifingar myndefnis, en ljóst er að stór hluti íslenskra kvikmynda í gegnum tíðina eru lítt eða ekki aðgengilegar í samtímanum.“

Efnisframboð streymisveitunnar verði háð áhuga og samþykki rétthafa íslenskra kvikmynda í hverju tilviki og ætlunin að vera í góðu samstarfi við þá aðila.

Að sögn Kvikmyndamiðstöðvar stendur til að veita aðgang að íslenskum kvikmyndaarfi þegar myndir eru ekki fáanlegar annars staðar. Streymisveitunni sé ekki ætlað að vera í samkeppni við aðra aðila sem kunna að bjóða upp á íslenskt efni hverju sinni. Miðað er við að notendur greiði fyrir sýningu einstakra verka.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×