Innherji

Það sem knýr vogunarsjóði til að ná eyrum fjöldans

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Helga kristín Auðunsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst og stjórnarmaður í Kviku banka.
Helga kristín Auðunsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst og stjórnarmaður í Kviku banka. VÍSIR/VILHELM

Samsetning eignarhalds í skráðum félögum og réttindi hluthafa hafa áhrif á það hvernig vogunarsjóðir knýja fram breytingar í þeim félögum sem sjóðirnir fjárfesta í. Þegar eignarhaldið er dreift er vogunarsjóðir líklegri til að ráðast í eins konar markaðsherferð á opinberum vettvangi.

Þetta var á meðal þess sem kom fram í doktorsverkefni Helgu Kristínar Auðunsdóttir, lektors við lagadeild Háskólans á Bifröst og stjórnarmanns í Kviku banka, sem hún varði nýlega við Fordham-háskólann í New York.

„Þegar eignarhaldið er mjög dreift þá færist baráttan um atkvæði á hluthafafundi á opinberan vettvang. Þá þarftu að ná eyrum fjölda hluthafa,“ segir Helga.

Verkefnið fjallaði um virkt eignarhald vogunarsjóða í skráðum félögum, einkum þegar sjóðirnir hafa bein afskipti af rekstrinum með það að markmiði að auka arðsemi félaganna.

Helga bar saman stjórnarhætti og fjárfestingar vogunarsjóða í í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi og kannaði áhrif laga og staðbundinnar venju á möguleika vogunarsjóða til að hafa áhrif. Tilgangurinn var að rannsaka hvaða þættir ráða því að vogunarsjóðir nota mismunandi aðferðir í mismunandi löndum.

„Aðgerðir snúa þá yfirleitt að innri stjórnarháttum félaga, til dæmis í formi tilrauna til að koma stjórnarmönnum að eða aðilum i framkvæmdastjórn. Kröfur vogunarsjóða geta einnig snúið að rekstrarlegum atriðum, til að mynda arðgreiðslum, uppskiptingu félaga eða samruna,“ segir Helga.

Það sem skilur vogunarsjóði frá hefðbundnum virkum hluthöfum er það að hefðbundin hluthafavirkni felur í sér virkt eftirlit með rekstri félaga eftir að ákvörðun um fjárfestingu hefur verið tekin en fjárfesta vogunarsjóðir í félögum sem þeir meta illa rekin, með það að markmiði að auka verðmæti eignarhlutsins. Þegar breytingar hafa verið innleiddar, selja þeir yfirleitt hlut sinn með hagnaði.

VÍSIR/VILHELM

„Vogunarsjóðir þrýsta oft á stjórnir félaga sem þeir eiga hlut í og leitast þá jafnan við að sannfæra aðra hluthafa um þörf á breytingum með gagnrýni á opinberum vettvangi á stjórnendur og ákvarðanir þeirra. Vogunarsjóðir sem fjárfesta í Bandaríkjunum notast við beinskeytta og harða gagnrýni á meðan vogunarsjóðir sem fjárfesta í Bretlandi og Þýskalandi stíga léttar til jarðar og vinna frekar með stjórnum félaga á bak við tjöldin,“ segir Helga.

„Í Bandaríkjunum gagnrýna þeir opinberlega stefnu fyrirtækjanna sem þeir fjárfesta í.“

„Í raun má segja,“ bætir Helga við, „að um markaðsherferð sé að ræða í vissum tilfellum. Sjóðirnir senda frá sér fréttatilkynningu eftir að viðskiptum er flaggað og tilgreina allt það sem þeir telja að í rekstri fyrirtækisins. Þar getur til dæmis komið fram að það þurfi að skipta út forstjóra eða stjórn eða skipta upp rekstrinum.“

Niðurstöður doktorsverkefnisins voru meðal annars þær að samsetning eignarhalds og réttindi hluthafa skipti máli. Í Bandaríkjunum og Bretlandi er eignarhald skráðra félaga almennt mjög dreift en í Þýskalandi er það samþjappað. Í Bretlandi hafa hluthafar hins vegar meiri réttindi en í Bandaríkjunum en það auðveldar þeim hluthöfum sem hafa fá atkvæði á bak við sig að hafa sig í frammi. Einnig virðist samsetning fjárfestahópsins skipta máli.

„Hlutfall stofnanafjárfesta í hluthafahópnum hefur áhrif á það hvort tillögur vogunarsjóða nái fram að ganga. Tilvist þeirra í hluthafahópnum verður til þess að vogunarsjóðir hafa samskipti við þá á bak við luktar dyr og reyna að sannfæra þá um að kjósa með framlögðum tillögum þeirra.“

„Þegar eignarhaldið er mjög dreift þá færist baráttan um atkvæði á hluthafafundi á opinberan vettvang. Þá þarftu að ná eyrum fjölda hluthafa.“

Annar þáttur sem gæti haft áhrif er aðgangur að upplýsingum um hluthafa. Fjárfestar í Evrópu geta nálgast lista yfir alla hluthafa viðkomandi félags og eignarhlut hvers og eins, en í Bandaríkjunum hvílir meiri leynd yfir hluthafahópnum.

„Þetta er dálítið eins og prófkjör í stjórnmálaflokki. Ef þú hefur ekki úthringilista yfir alla sem eru skráðir í flokkinn þá þarftu að fara með málstað þinn á opinberan vettvang, í blöðin eða á samfélagsmiðla.“

Borgar sig oft að fara að ráðum vogunarsjóða

Þó að vogunarsjóðir eigi jafnan lítinn eignarhlut í félögum ná þeir oft að knýja fram stórar breytingar. Aðspurð segir Helga Kristín að ástæða fyrir árangri vogunarsjóða sé tvíþætt.

„Í fyrsta lagi stafar ákveðin ógn af innkomu vogunarsjóðs. Ef vogunarsjóður kaupir lítinn hlut í skráðu félagi þá hefur hann burði til að kaupa stærri hlut og ef hann selur síðan bréfin á einu bretti þá hefur það bein áhrif á virði félagsins og aðrir hluthafar selja oft bréf í kjölfarið. Bæði vegna hjarðhegðunar og hræðslu á markaði um að það sé mikið sé að í rekstri félagsins,“ segir Helga Kristín.

Þessi óyrta og undirliggjandi hótun veitir stjórnendum visst aðhald. Í öðru lagi er það oft þannig að margir hluthafar hafa trú á stefnu vogunarsjóða.

„Vogunarsjóðir leggjast í ýtarlega rannsóknarvinnu á viðkomandi félagi áður en þeir ákveða að fjárfesta og fyrri rannsóknir hafa sýnt að ef félög verða við óskum vogunarsjóða þá eykst virði þeirra.“

Horfa nú til fleiri en fjárhagslegra þátta

Vogunarsjóðir hafa haft slæmt orð á sér, og hugtakið eitt og sér skapar neikvæð hughrif í hugum margra. En að sögn Helgu Kristínar gæti þetta breyst.

„Fjárfestingarstefna vogunarsjóða miðar að því að skila arði. Eigendavirkni slíkra sjóða hingað til og tillögur þeirra á hluthafafundum hafa einblínt á rekstrarlegar aðgerðir til að auka arðsemi. Að undanförnu hefur það hins vegar verið að gerast að virkir vogunarsjóðir eru farnir að skoða ófjárhagslegar upplýsingar við mat á fjárfestingum,“ segir Helga.

„Algengara er nú að vogunarsjóðir fjárfesti í félögum sem skortir árvekni á sviði ESG þátta (UFS)og beiti sér með beinum hætti til umbóta. ESG-þættir hafa oft ekki verið metnir beint til fjár eða en vogunarsjóðir, sem virðast oft nokkrum skrefum á undan, eru byrjaðir að taka þá með í reikninginn.“

Titill verkefnisins er Hedge Fund Activism and Systems of Corporate Governance in the United States, United Kingdom and Germany og vörnin fór fram við Fordham University í New York ríki í Bandaríkjunum í byrjun september.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×