Innherji

Bankarnir komi hinu opinbera til bjargar

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Svanhildur Hólm er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Svanhildur Hólm er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Að viðskiptabönkunum undanskildum hefur stöðugildum hins opinbera í atvinnurekstri fjölgað um 2,6 prósent frá árinu 2016.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs. Að bönkunum meðtöldum hefur þeim hins vegar fækkað um 3,5 prósent. Viðskiptaráð færir rök fyrir því í úttektinni að þar sem ekki ríkir samkeppni, verði ekki aðhald.

Viðskiptaráð vill á þeim forsendum að hið opinbera geri þjónustusamninga við einkaaðila þar sem markaðsbrestur ríkir. Enn fremur þurfi að gæta þess að hið opinbera útvíkki ekki starfsemi sína yfir í samkeppni við einkaaðila nema skýr rökstuðningur liggi fyrir og mat á áhrifum slíkrar starfsemi á samkeppni. Hætta skuli þátttöku hins opinbera á samkeppnismarkaði með sölu á eignarhluta hins opinbera.

Stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgað mest

Í úttektinni kemur fram að stöðugildum í opinberum atvinnurekstri hafi fjölgað mest þar sem markaðsbrestur ríkir, alls um 6,4 prósent. Á hinn bóginn hafi samkeppnisrekstur hins opinbera dregist saman en að bönkunum undanskildum hefur stöðugildum í samkeppnisrekstri fjölgað um 4,9 prósent. Þá hafi atvinnurekstur á mörkum markaðsbrests og samkeppni staðið nokkurn veginn í stað.

Viðskiptaráð reiknaði út, að ef sé horft til hins opinbera í heild, einnig stofnana og sveitarfélaga, hafi stöðugildum fjölgað um 14 prósent frá 2016 til 2020 á sama tíma og þeim fækkaði í einkageiranum. Samkvæmt VÍ skýri heimsfaraldurinn einungis hluta þróunarinnar.

Launahækkanir leiddar af hinu opinbera

Hið opinbera hefur leitt launahækkanir síðustu misseri með 17 prósent hækkun launa frá upphafi faraldursins en þróunin hefur ekki verið í samræmi við framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Laun hjá hinu opinbera hækkuðu tvöfalt meira en laun starfsmanna á almennum markaði frá maí 2020 til maí 2021. Hækkanir síðustu mánuði hafa þó verið litlar hjá hinu opinbera en í ágúst höfðu laun opinberra starfsmanna hækkað um 11,3 prósent frá fyrra ári samanborið við 6,3 prósent hækkun launa starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Frá upphafi faraldursins, á fyrsta fjórðungi 2020, nema launahækkanir opinberra starfsmanna 17 prósent og eru þær frá ársbyrjun 2014 orðnar 8 prósent meiri en á almennum markaði, samkvæmt úttektinni.

Laun opinberra starfsmanna hérlendis námu 16 prósent af landsframleiðslu árið 2020 samanborið við 11 prósent meðaltal ESB ríkja meðal OECD.

Laun í samhenginu

Laun opinberra starfsmanna sem hlutfall af stærð hagkerfisins í alþjóðlegu samhengi gefur enn skýrari mynd af stöðunni. Samkvæmt úttektinni nema laun opinberra starfsmanna hérlendis 16 prósent af landsframleiðslu árið 2020 samanborið við 11 prósent meðaltal ESB ríkja meðal OECD. Aðeins í Noregi var hlutfallið lítillega hærra.

Allar líkur séu á að hlutfallið verði enn hærra hér á landi í ár þar sem launavísitala opinberra starfsmanna var í ágúst 12 prósent hærri en að meðaltali 2020, auk þess sem opinberum starfsmönnum hefur haldið áfram að fjölga.

Hátt hlutfall launakostnaðar beri merki þess að laun opinberra starfsmanna eða umsvif hins opinbera, líklega hvort tveggja í senn, séu mun hærri hér en víðast annars staðar.

Úr úttekt Viðskiptaráðs:

Almennt og til einföldunar má skipta opinberum atvinnurekstri í þrjá flokka.

Í fyrsta lagi stunda stjórnvöld rekstur þar sem markaðsbrestir eru taldir vera til staðar, en þar leiðir frjáls markaður ekki endilega til hagfelldrar niðurstöðu og getur þá inngrip talist nauðsynlegt. Dæmi um slíkt er rekstur ákveðinnar grunnþjónustu sem einkaaðilar stunda ekki.

Í öðru lagi stunda sum fyrirtæki og stofnanir hins opinbera rekstur þar sem mörkin milli markaðsbrests og samkeppni eru óljós eða þá að samkeppni getur ríkt á sumum starfssviðum og markaðsbrestur á öðrum. Dæmi um slíkan rekstur er Veðurstofa Íslands. Hlutverk hennar er að stuðla að bættu öryggi gagnvart náttúruöflunum með öflun ýmissa gagna, rannsókna og miðlun upplýsinga. Eigi að síður eru önnur fyrirtæki í einkarekstri sem sinna sambærilegri þjónustu að hluta til, t.a.m. Blika sem sinnir veðurspá og veitir upplýsingar um hana. Rekstur af þessu tagi er að finna í ráðningarþjónustu, útlánastarfsemi, fasteignarekstri og fræðslustarfsemi.

Þriðji flokkurinn er hefðbundinn samkeppnisrekstur í beinni samkeppni við einkaaðila án þess að sérstök rök standi til þess. Tæplega þriðjungur stöðugilda hins opinbera í atvinnurekstri er á þeim vettvangi. Dæmi um slíkan rekstur er að finna í bankaþjónustu, smásölu, malbiksframleiðslu, fjölmiðlun, kortagerð o.fl. Auk þess falla hér undir fyrirtæki hins opinbera sem starfa á einokunarmarkaði en ekkert er til fyrirstöðu að samkeppni geti ríkt, t.d. starfsemi ÁTVR.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×