Körfubolti

Lætin í Detroit gætu verið vendi­punktur tíma­bilsins fyrir Lakers

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James var hent út úr húsi í Detroit.
LeBron James var hent út úr húsi í Detroit. Nic Antaya/Getty Images

Los Angeles Lakers hefur átt erfitt uppdráttar í upphafi tímabils í NBA-deildinni í körfubolta. Mikil læti áttu sér stað í leik Lakers og Detroit Pistons, Lebron James var hent út úr húsi en Lakers kom til baka og vann slakt lið Detroit. Voru lætin það sem þurfti til að vekja Lakers?

Mikið hefur verið rætt og ritað um Lakers frá því að síðasta tímabili í NBA-deildinni lauk. Liðið tók miklum breytingum og enn á ný var reynt að púsla saman leikmannahóp sem á að ná því besta úr LeBron James og Anthony Davis.

Sá fyrrnefndi hefur hins vegar verið að glíma við meiðsli og gengið ekki verið gott. Fyrir leikinn gegn Detroit hafði Lakers unnið 8 leiki en tapað 9. Það stefndi allt í tíunda tapið gegn Detroit-liði sem hafði aðeins unnið fjóra af fyrstu 15 leikjum sínum í deildinni.

Það er þangað til LeBron rak hendina í Isiah Stewart og allt sauð upp úr. LeBron var hent út úr húsi en Lakers kom til baka eftir að lenda 17 stigum undir og vann leikinn, lokatölur 121-116.

Bill Oram, sem fjallar eingöngu um Lakers fyrir The Athletic, veltir fyrir sér hvort lætin í Detroit gætu orðið vendipunktur tímabilsins. Það atvik sem loksins hristir leikmannahóp Lakers saman og fær menn til að snúa bökum saman.

Russell Westbrook setti í fimmta gír og Davis spilaði ótrúlega vörn, allavega í fjórða leikhluta. Westbrook endaði einu frákasti frá þrefaldri tvennu. Hann skoraði 26 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók 9 fráköst. Davis skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Í leikhléinu milli þriðja og fjórða leikhluta stóð Carmelo Anthony upp og sagði við samherja sína „það er hér sem við ákveðum hvað við erum sem lið.“

Westbrook tók í sama streng og bætti við „við erum að fara vinna þennan leik.“ Hann lagði svo sitt á vogarskálarnar en Westbrook skoraði 15 af 26 stigum sínum í fjórða leikhluta leiksins.

Lakers steinlá gegn erkifjendum sínum Boston Celtics í leiknum fyrir leikinn gegn Detroit. Leikmenn liðsins sögðu alla réttu hlutina en virtust fastir í sama kviksyndi og allt tímabilið framan af leik í Detroit. Það er þangað til Lebron og Stewart lenti saman og allt sauð upp úr.

Nú er bara að bíða og sjá hvort þetta kveiki eld undir leikmönnum Lakers og liðið rífi sig í gang eftir slaka byrjun á tímabilinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.