Körfubolti

Trompaðist eftir að LeBron James sló hann til blóðs

Sindri Sverrisson skrifar
Isaiah Stewart var í hefndarhug eftir höggið frá LeBron James. Báðir voru reknir af velli.
Isaiah Stewart var í hefndarhug eftir höggið frá LeBron James. Báðir voru reknir af velli. AP/Nic Antaya

LeBron James var rekinn út úr húsi eftir að hafa slegið andstæðing til blóðs í sigri Los Angeles Lakers á Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

James og Isaiah Stewart börðust um frákast eftir vítaskot þegar skammt var liðið á 3. leikhluta, og Lakers tólf stigum undir, 79-67.

Eins og sjá má hér að neðan sló James hendi í höfuð Stewarts sem brást illur við, sérstaklega þegar blóð byrjaði að leka niður andlit hans. Stewart reyndi að ná til James og ítrekað þurfti að stöðva þær tilraunir hans áður en honum var vísað úr húsi rétt eins og James.

Þetta er aðeins í annað sinn sem hinn 36 ára gamli James er rekinn af velli á 19 ára löngum ferli. Hann var einnig rekinn af velli í nóvember árið 2017, í leik gegn Miami Heat.

James ræddi ekki við fjölmiðla eftir leikinn en Anthony Davis tók til varna fyrir hann:

„Allir í deildinni vita að LeBron er ekki leikmaður sem beitir bellibrögðum. Um leið og hann fann að hann hefði slegið hann [Stewart] horfði hann á hann og sagði: „Ó, fyrirgefðu. Ég ætlaði ekki að gera þetta.““

Það á eftir að skýrast hvort og hvernig leikmönnunum tveimur verður refsað með leikbanni en James á á hættu að missa af ferð Lakers í Madison Square Garden þar sem liðið mætir New York Knicks annað kvöld.

Davis og Russell Westbrook sáu hins vegar til þess að Lakers færi með sigur af hólmi í leiknum gegn Detroit sem lauk með 121-116 sigri Lakers. Davis skoraði 30 stig og tók 10 fráköst, og Westbrook skoraði 26 stig, tók 10 fráköst og átti níu stoðsendingar.

  • Úrslitin í nótt:
  • LA Clippers 97-91 Dallas
  • Detroit 116-121 LA Lakers
  • Chicago 109-103 New York Knicks
  • Phoenix 126-97 Denver
  • Golden State 119-104 Toronto
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×