Innherji

Ásókn í breytilega vexti hefur ekki verið minni síðan í byrjun árs 2019

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Veiting lána með breytilegum vöxtum hefur farið ört minnkandi á síðustu mánuðum.
Veiting lána með breytilegum vöxtum hefur farið ört minnkandi á síðustu mánuðum. vísir/vilhelm

Í október voru 85 prósent nýrra íbúðalána til heimila með föstum vöxtum en einungis 15 prósent með breytilegum vöxtum. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um útlán í bankakerfinu. Veiting íbúðalána með breytilegum vöxtum hefur ekki verið minni frá því í janúar 2019.

Ný íbúðalán til heimila að frádregnum uppgreiðslum námu ríflega 19 milljörðum króna í október. Einungis þrír milljarða voru lán á breytilegum vöxtum en restin, rúmlega 16 milljarðar króna, voru lán á föstum vöxtum.

Töluverð eftirspurn var eftir lánum með breytilegum vöxtum í vor – nettó ný útlán voru um 25 milljarðar króna í bæði apríl og maí – en síðan þá hefur veiting slíkra lána farið ört minnkandi.

Ummæli sem Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóri lét falla í hlaðvarpsþætti í sumar vöktu mikla athygli en þar ráðlagði hann fólki að festa vexti.

Á aðeins örfáum mánuðum hefur Seðlabankinn hækkaði vexti úr 0,75 prósent í 2 prósent auk þess að hafa gripið til aðgerða á vettvangi fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefndar – hlutfall hámarks veðsetningar fasteignalána var lækkað í 80 prósent og eins settar reglur um 35 prósenta hámark á greiðslubyrði – í því skyni að reyna kæla fasteignamarkaðinn.

Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í síðustu viku og vísaði til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu.

Seðlabankastjóri sagði í samtali við Innherja í síðustu viku að ekki væri „endilega“ von á hröðum vaxtahækkunum á komandi misserum. Næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er í febrúar.

„Við ættum þá að hafa betri yfirsýn yfir stöðu mála en það gæti verið óþægilegt fyrir okkur ef við sjáum verðbólguna halda áfram að hækka á næstu þremur mánuðum á sama tíma og þessar launahækkanir eru að koma inn,“ útskýrði Seðlabankastjóri.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×