Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Selfoss 32-25 | Sannfærandi sigur Eyjamanna

Einar Kárason skrifar
Rúnar Kárason skoraði fimm mörk fyrir ÍBV.
Rúnar Kárason skoraði fimm mörk fyrir ÍBV. Vísir/Vilhelm

Frábær seinni hálfleikur varð til þess að Eyjamenn unnu sannfærandi sjö marka sigur á nágrönnum sínum frá Selfossi. Selfyssingar höfðu endurheimt menn til baka úr meiðslum fyrir leikinn í dag og höfðu gestirnir unnið tvo leiki í röð. Eyjamenn töpuðu hinsvegar naumlega gegn Haukum í síðustu umferð.

Heimamenn í ÍBV náðu snemma forskoti í leiknum en gestirnir frá Selfossi voru aldrei langt undan. Mestur varð munurinn á liðunum fjögur mörk og var staðan þegar innan við tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum13-9, ÍBV í vil. Selfyssingar gáfu þá í og hófu að saxa á forskot Eyjamanna.  Allt virtist ganga upp hjá gestunum undir lok hálfleiksins og þegar inn í hálfleik var skildi eitt mark liðið að, 15-14.

Selfoss skoraði fyrsta mark síðari hálfleiksins og jöfnuðu þar með leikinn. Það reyndist þó skammlíft en lið ÍBV tók á rás og skoraði sex mörk gegn einu manni gestanna. Staðan þá orðin 21-16 og Eyjaliðið aftur komið með þægilega forustu. Þessi stutti kafli í byrjun síðari hálfleiks reyndist of stór biti fyrir Selfyssinga sem aldrei náðu að komast minna en tveimur mörkum frá ÍBV. Þá var staðan 24-22 og um tíu mínútur eftir af leiknum. Á þessum lokamínútum gengu Eyjamenn frá nágrönnum sínum en þeir skoruðu átta mörk gegn þremur.

Niðurstaðan því sannfærandi sjö marka sigur ÍBV sem eru komnir með tólf stig í Olís deildinni á meðan Selfoss er enn með sex.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjaliðið er gríðarlega vel mannað og þegar góðir leikmenn spila vel saman er erfitt við þá að eiga. Vörn ÍBV var öflug, þá sér í lagi í síðari hálfleiknum og markvarslan einnig góð. Selfyssingar gerðu sig líklega undir lok fyrri hálfleiks en Eyjamenn stigu almennilega á bensíngjöfina í þeim síðari og virtust aldrei líklegir til að missa leikinn úr höndum sér.

Hverjir stóðu uppúr?

Erfitt að taka einhvern einn úr liði ÍBV í dag til að hrósa sérstaklega þar sem liðið allt í heild skilaði þessum sigri í dag. Arnór Viðarsson, Rúnar Kárason og Sigtryggur Daði Rúnarsson skoruðu allir fimm mörk og Elmar Erlingsson, ungur Eyjastrákur, kom sterkur inn í seinni hálfleiknum og skoraði fjögur. Petar Jokanovic átti flottan dag í markinu hjá ÍBV og varði fjórtán skot, þar af tvö víti.

Fyrrum leikmaður ÍBV, Einar Sverrisson, var atkvæðamestur í liði Selfoss en hann skoraði níu mörk úr fimmtán skotum, þar af sex úr vítum. Honum næstur var Guðmundur Hólmar Helgason með sex mörk. 

Hvað gekk illa?

Seinni hálfleikur Selfyssingar er áhyggjuefni fyrir þjálfarateymið. Mikið af töpuðum boltum og áttu Eyjamenn of auðvelt með að skora mörk. Að því sögðu eru Selfyssingar að endurheimta menn úr meiðslum sem þurfa aðlögum og tíma til að komast í alvöru leikform.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn halda í Garðabæinn og eiga þar leik við Stjörnuna en Selfyssingar fá Gróttu í heimsókn.

Erlingur: Varnarleikurinn skóp sigurinn

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.vísir/vilhelm

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sigur sinna manna á nágrönnunum. ,,Ég er mjög ánægður með leikinn, sérstaklega varnarlega. Það var punkturinn sem ég nefndi við þig fyrir leik. Frá síðasta leik vildum við spila góða vörn og við gerðum það. Markvarslan fylgdi svo í kjölfarið. Heilt yfir náðum við að gera það sem við vildum."

Frábær seinni hálfleikur

,,Við ræddum í hálfleik að við sýnum of oft veiklega þegar við erum komnir með þriggja, fjögra marka forustu. Við ætluðum að laga það í seinni hálfleiknum ef að sú staða kæmi upp, sem og gerðist. Við héldum haus og var ég mjög ánægður með það."

,,Þeir fundu aðeins línumanninn í seinni hálfleik en mín tilfinning er eftir leik að  þeir hafi ekki náð mörgum skotum af níu metrunum í seinni hálfleik. Eins og ég segi, þá er varnarleikurinn það sem skóp sigurinn í dag."

,,Þessir leikir eru allir ústlitaleikir í sjálfu sér. Það verður tæpt á milli liða þannig að hvert stig telur."

Halldór: Mætum ekki tilbúnir í slaginn

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga.Vísir/Hulda Margrét

,,Við fáum á okkur 32 mörk sem er ekki líkt okkur," sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss eftir leik. ,,Við spilum slakan varnarleik og fáum ekki nægilega góða markvörslu, þó hún hafi ekki skipt höfuðmáli í dag. Við getum ekki keypt okkur mark úr hraðahlaupi sem er stórt vandamál."

Slæmar ákvarðanir og engin vörn

,,Við byrjum leikinn svakalega illa og erum ekki tilbúnir í slaginn. Það var ekkert óvænt í þeirra leik. Þeir spila sinn leik og gera það vel. Við við ætluðum að hægja á ákveðnum hreyfingum hjá þeim en vorum ekki klárir í það í byrjun. Það kemur svo smá líf í okkur undir lok fyrri hálfleiks."

,,Við förum einu marki undir í hálfleik og fyrri hluti seinni hálfleiks var ágætur. Það var ekki mikið skorað og bæði lið að spila vörn en svo spilum við bara leiknum frá okkur. Við tökum slæmar ákvarðanir og kasta boltanum frá okkur og hættum að spila vörn. Það fellur allt frá okkur sem við ætluðum að standa fyrir."

Auðmjúkir gagnvart stöðunni

,,Það koma fullt af möguleikum sóknarlega sem við getum nýtt okkur miklu betur. Við erum að þvinga okkur í erfið skot. Við þurfum að kíkja vel yfir okkar leik og fara í naflaskoðun með það hvað við ætlum okkur. Í dag vantar ótrúlega mikið upp á framlag frá nokkrum leikmönnum og ég er óánægður með það."

,,Við verðum samt að vera auðmjúkir gagnvart stöðu okkar. Við getum ekki ætlast til að mæta til Eyja og vinna ÍBV á þessum tímapunkti. Við þurfum að vinna í okkar málum. Þó við séum að fá menn inn þá eru þetta leikmenn sem eru búnir að vera í burtu í langan tíma og þurfa tíma til að komast sér inn í hlutina, en mér fannst vanta upp á margt í okkar leik. Því miður."

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.