Umræðan

Af háum hesti: Skeifa var glaðlegasti svipurinn

Brynjar Níelsson skrifar

Frá lokum þjóðveldisins og fram undir miðja síðustu öld þekktu Íslendingar ekki annað en kulda, vosbúð og hallæri. Hjón misstu að minnsta kosti annað hvert barn og fáir náðu því að verða miðaldra. Fordómar gagnvart miðaldra fólki er því nýtt fyrirbæri. Þegar loksins stefnir í að það hlýni eitthvað koma leiðtogar heimsins sér saman um að stöðva þá hlýnun. Það kemur því engum á óvart að Íslendingar eru að upplagi neikvæðir og svartsýnir. 

Fólk brosti ekki mikið á gömlum ljósmyndum, hvort sem það var vegna depurðar eða tannleysis. Skeifa var glaðlegasti svipurinn sem náðist á mynd.

Margt hefur breyst á síðustu áratugum. Við erum komin í flokk mestu velferðarríkja heims. Við lifum lengur en aðrir og hvergi er barnadauði minni. Samt eru engin merki um að dregið hafi úr neikvæðni og svartsýni. Daglega eru fréttir um hvað heilbrigðiskerfið er ómögulegt, álag mikið á starfsmönnum, launin lág, skortur á hæfu starfsfólki, aðstæður slæmar, fjárskortur og stjórnmálamenn skilningslitlir. En þegar gluggað er í tölfræðiupplýsingar OECD frá 2019 um heilbrigðiskerfi aðildarþjóða og aðrar viðurkenndar upplýsingaveitur birtist allt önnur mynd. Við ýmist trónum á toppnum eða vel yfir meðaltali.

Ísland er með fleiri lækna miðað við íbúafjölda en gengur og gerist og enn fleiri hjúkrunarfræðinga. Fjöldi sjúkrarúma er með því sem mesta gerist. Laun til lækna og hjúkrunarfræðinga eru rausnarleg og hærri en í helstu samanburðarlöndum. Laun almennra lækna er þau langhæstu en sérfræðilæknar ná sjötta sætinu. Laun hjúkrunarfræðinga eru þau fjórðu hæstu og er lítill munur á þeim og hæstu laununum.

Að tapa út í eitt

Samkvæmt öllu þessu ætti Ísland að vera með eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi. Við ættum líka að vera með ánægðasta starfsfólkið, enda gerast launakjör vart betri í heiminum. En þrátt fyrir þetta er ýmist neyðarástand eða hættustig á spítalanum og starfsfólkið þreytt og óánægt. Spítalinn ræður ekki neitt við neitt, almenningur þarf að dúsa heima eða á hótelum í einangrun og fær ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Slíkt neyðarástand hefur þó ekki raungerst í löndum þar sem almenningur fær um frjálst höfuð strokið og þar sem heilbrigðiskerfið býr við skertari hlut en hér.

Íslenska heilbrigðiskerfið er farið að líkjast enska knattspyrnuliðinu Manchester United, sem er með dýrustu, bestu og launahæstu leikmennina, flesta aðdáendur, besta tekjustreymið, ríkustu styrktaraðilana. Samt tapar liðið leikjum sínum út í eitt.

Kannski er ástæðan sú að þeir spila ekki sem lið heldur 11 einstaklingar. Er íslenska heilbrigðiskerfið að glíma við sama vanda?

Það eru bráðum tvö ár síðan kórónuveiran kom í hús. Á þeim tíma hefur íslenska heilbrigðiskerfið sett nýtt met í kyrrstöðu. Spítalinn hefur ekki séð ástæðu til þess að fjölga gjörgæslurýmum eða taka öndunarnarvélar úr pakkningunum. Forstjóri Karolinska fimmfaldaði gjörgæslurými á nokkrum vikum með vinstri hendinni. Það er greinilega miklu einfaldara að takmarka frelsi og réttindi fólks þegar smitum fjölgar en að gera eitthvað sjálfur. Þetta snýst jú allt um spítalann og líðan starfsmanna þar. Ekki um fólkið sem missir lífsviðurværi sitt og eyðir tíma sínum í einangrun með tilheyrandi kvíða og depurð.

Músartíst undir hrammi fjalarkattarins

Sáralítið hefur breyst þótt þjóðin sé svo gott sem fullbólusett og afar fátítt að fólk veikist alvarlega. Enn erum við í eilífum smitrakningum og þvingum fólk í sóttkví, líka börn. 

Í stað þess að sinna veikum fer öll orka hjúkrunarfræðinga í það að ónáða heilsuhraust fólk með símtölum, sem hefur smitast. Hvað ætli margir munu deyja og glíma við vanheilsu vegna þessara sóttvarnaaðgerða til að koma í veg fyrir að heilsuhraust og bólusett fólk fái veiruna?

Það er ámátlegt músartístið í ráðherrum Sjálfstæðisflokksins undir hrammi fjalarkattarins þegar kemur að frelsi og réttindum einstaklingsins. Við erum fangar kerfisins sem á að þjóna okkur. Við höfum haft langan tíma til að undirbúa heilbrigðisstofnanir undir smit og veikindi og enginn skortur er á fjármunum. En ekkert hefur gerst nema að gerður var starfslokasamningur við forstjóra spítalans.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Pistlar hans verða reglulegir á Innherja.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×